153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[11:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér markmið Íslands í loftslagsmálum. Þegar maður fer að skoða málið þá er mikilvægt að skoða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég verð að segja að maður fyllist nánast þjóðarstolti, ég segi ekki að maður verði klökkur, þegar maður les þær yfirlýsingar sem eru þar. Með leyfi forseta segir þar:

„Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu […] Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins. […] Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og verða í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. […] Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.“ — Fyrst ríkja í heiminum. Þetta eru svo göfug markmið að maður verður nánast klökkur.

Í sama kafla segir líka að ríkisstjórnin muni ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Svo að ég byrji bara á síðasta atriðinu, varðandi það að hefja ekki olíuleit í efnahagslögsögu Íslands: Í tengslum við loftslagsmál og umhverfismál þá heitir þetta umhverfisleki. Þetta heitir „environmental leakage“. Ísland þarf að vera hreinna en önnur ríki, betra en önnur ríki en aðrir eiga að sjá um að menga, aðrir eiga að finna olíuna og flytja hana hingað til lands. Það sýnir hvers konar hræsni er þarna undir.

Það að ætla sér að vera í fararbroddi í heiminum og í fremstu röð í heiminum — við erum það ekki á nokkurn hátt hvað þetta varðar, svo að það liggi algerlega fyrir. Það er enginn að horfa til Íslands. Jú, jú, við erum að dæla kolefni niður í berglögin, það er gott og blessað en það verður mjög erfitt að skala það upp af einhverju viti. Það er það eina sem við erum að gera sem skiptir máli og einhver er að pæla í á Íslandi.

Það sem við erum hins vegar að gera er það að vegna orkustefnu Evrópusambandsins og samþykktar orkupakkanna eru 87% af raforku á Íslandi framleidd úr kolum og kjarnorku. Sala upprunaábyrgða til fyrirtækja í ESB hefur falið í sér að raforka á Íslandi er framleidd með jarðefnaeldsneyti, 57%, og kjarnorku, 30%. Upprunabókhald raforku er skýrt. Evróputilskipanir ESB sjá síðan til þess að þegar kemur að loftslagsmálum þá þarf ekki að skoða hvaðan sú mengun kemur og hvert hún fer. Loftslagsbókhaldið er ekki tengt við þetta, auðvitað ekki. Þeir vilja halda áfram að menga og nota íslenska orku, íslenskt „brand“ til að sýna hversu grænir þeir eru.

Þegar við komum að loftslagsmálunum þá er vert að skoða árlega skýrslu Umhverfisstofnunar til Evrópusambandsins (Forseti hringir.) og Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að Ísland jók losun sína um 20% frá árinu 1990. (Forseti hringir.) Það eru engar líkur á við stöndum við Kyoto-samninginn og algjörlega útilokað (Forseti hringir.) að við stöndum við Parísarsamkomulagið. Það er staðan á Íslandi og það er markmið sem við eigum að setja okkur, að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar áður en (Forseti hringir.) við förum að tala um að vera fremst í heimi. Byrjum þar.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir á að ræðutími er þrjár mínútur og biður hv. þingmenn að virða það.)