153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[12:09]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu hér. Loftslagsmálin eru eitt af stóru málunum. Ég held að við hér á Íslandi búum við þá stöðu að við þurfum kannski ekkert að eyða of miklum tíma í að rífast um það hversu stór loftslagsvandinn er eða hvort hann sé eða ekki eða annað slíkt. Við erum bara í þannig stöðu að við erum hérna með öll þau tækifæri til að takast á við loftslagsvandann, bæði hér innan lands og aðstoða við það annars staðar og við getum horft á það sem tækifæri, efnahagslegt tækifæri og tækifæri til betri velferðar og lífsgæða hér á landi og ég held að við eigum að einsetja okkur að gera það.

Við höfum verið dugleg að segja A, mér finnst þjóðir heimsins margar hverjar mjög duglegar að segja A og við hérna á Íslandi sérstaklega. Við ætlum að undirgangast Parísarsamkomulagið sem er bara handan við hornið. Við ætlum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa. Við ætlum að minnka losun fyrir 2040 og þannig lengi hægt að telja en við verðum bara að sætta okkur við að það að segja A þýðir að næst kemur B. Við verðum að fara að komast í þetta B, þ.e. að leyfa þeim sem hafa hugmyndir og lausnir að koma fram með þær og ekki standa í vegi fyrir þeim. Við verðum að komast áfram þá í að nýta auðlindir okkar í hreinni orku. Við þurfum að geta farið af stað með þau tæki og tól sem við höfum í okkar mikla landi til að binda kolefni og mikilli þekkingu hjá okkar góðu bændum í að rækta og græða upp. Við þurfum að leyfa hugvitinu að fá straum í puttann. Við sjáum bara í sjávarútveginum núna hvað við erum að flytja gríðarlega mikið af hugviti út af því að við erum búin að vera að veiða fiskinn, stinga okkur á önglunum og vera blóðug upp fyrir haus og þannig hefur orðið til þekking og reynsla sem við erum að flytja út um allan heim. Þetta þurfum við að gera líka í loftslagsmálum og erum byrjuð að gera varðandi hitaveituna og margt í rafmagninu líka. Því held ég að ef við horfum á þetta sem tækifæri til aukinnar velferðar hér á landi og förum að þora að stíga skrefin í B-liðnum sem ég nefndi hér áðan þá getum við hjálpað heiminum mikið.

Að lokum vil ég segja það að ég hlakka mikið til að fara núna á COP27 ráðstefnuna í Egyptalandi. Ég tel mikilvægt að þingmenn fari og taki þar þátt af því að það er jú stór sendinefnd frá íslenskum stjórnvöldum þarna sem keyrir svolítið ferðina en svo þegar heim er komið þá erum það við þingmenn sem berum ábyrgð á öllu þannig að ég held að það sé mikilvægt að við förum og fylgjumst með.