153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[12:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Réttlát, græn umskipti í átt að kolefnishlutlausri framtíð eru eitt brýnasta umhverfis-, samfélags- og efnahagsmál samtímans. Með grænum umskiptum þarf að tryggja að aðgerðir ýti ekki undir aukinn ójöfnuð og tryggja þarf um leið mannsæmandi störf og lífskjör. Á endanum verða allir að leggja sitt af mörkum. Grænu umskiptin gætu leitt af sér sanngjarnari skiptingu gæða en þekkist nú. Komi hins vegar til þess að fólk upplifi vaxandi ójöfnuð vegna aðgerða í baráttunni við loftslagsbreytingar mun það veikja stuðning við aðgerðirnar og verða til þess að árangur næst ekki í að vinna gegn þeirri ógn sem loftslagsvá af manna völdum er.

Loftslagsmálin eru allt of mikilvæg til að vera skiptimynt á milli stjórnmálaflokka. Ég hef áhyggjur af því að málamiðlanir á milli stjórnarflokkanna um aðgerðir gegn loftslagsvá leiði til niðurstöðu sem fáir skilja hvernig á að framkvæma eða fjármagna. Við þurfum ekki bara að hafa náð 55% samdrætti í losun 2030, eftir átta ár, og kolefnishlutleysi 2040 heldur þurfum við samtímis að standa vörð um lífskjör, vera samkeppnishæf við önnur lönd og halda í unga fólkið okkar. Við þurfum að vera í sókn um leið og við gerum nauðsynlegar breytingar. Hvernig ætli það gangi að standa við Helsingfors-yfirlýsingu forsætis- og umhverfisráðherra Norðurlanda um að norrænu ríkin ætli sér að leiða baráttu gegn loftslagsbreytingum, yfirlýsingu sem undirrituð var fyrir fjórum árum síðan? Erum við að vinna eftir tímasettum og fjármögnuðum áætlunum um norrænt samstarf í þessum efnum? Ég held ekki. Bókin hans Stefáns Jóns Hafsteins, Heimurinn eins og hann er, ætti að vera skyldulesning fyrir ráðherra og þingmenn. Þar segir m.a. þetta, með leyfi forseta:

„Höfin gleypa í sig 20–30% af koltvíoxíði sem mannverurnar losa í andrúmsloftið og hafa ekki undan að vinna úr. Árlega soga höfin í sig hita frá mannlegum athöfnum sem nemur um 150 sinnum þeirri raforku sem framleidd er í heiminum öllum á sama tíma. Ef höfin slepptu lausum öllum þeim hita sem þau hafa geymt síðan iðnvæðing hófst myndi hitastig á jörðinni hækka um 36°.“

Getur þetta gerst? Það veit enginn en áhrifin af súrnun sjávar eru þó sýnileg og alvarleg. Því miður er enn mikil afneitun í samfélaginu og vanmat gagnvart vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Í Covid-faraldrinum áttuðu sig allir á að þar var alvara á ferð og að þjóðarátak væri nauðsynlegt. (Forseti hringir.) Við lögðum traust okkar á vísindamennina og fórum eftir þeim ráðum sem þeir gáfu okkur. Það sama þarf að gera gagnvart loftslagsvánni.