153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

Loftslagsmarkmið Íslands, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. .

[12:36]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir hans góðu skýrslu um loftslagsmarkmið Íslands, einnig góða þátttöku hv. þingmanna Norðausturkjördæmis í þessari umræðu. Hún er eftirtektarverð. Loftslagsmálin voru mikið rædd á nýliðnum góðum og fjölmennum landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi, þeim 44. í röðinni. Í minni ræðu mun ég fara yfir hluta af þeim punktum sem koma fram í nýsamþykktri stjórnmálaályktun og nýsamþykktri ályktun málefnanefndar umhverfis- og samgöngunefndar Sjálfstæðisflokksins.

Í stjórnmálaályktun fundarins eru loftslagsmálin ávörpuð með öflugum hætti. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Loftslagsbreytingar ógna öryggi, efnahag og velferð heimsins. Tryggja þarf að staðið verði við metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis þannig að kolefnishlutleysi náist. Gríðarleg efnahagsleg tækifæri liggja í grænum orkuskiptum með hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Loftslagsmál og orkumál verða ekki skilin að. Ísland á að vera fyrirmynd í sjálfbærni, hringrásarhagkerfinu og grænni orku. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að Íslendingar haldi forystu í grænni orkubyltingu og hverfi frá notkun jarðefnaeldsneytis. Forsenda þess er stóraukin orkuframleiðsla með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Einfalda þarf flókið regluverk og tímafrekt ferli leyfisveitinga til nýtingar grænna orkuauðlinda. Tryggja verður afhendingaröryggi raforku með öflugu flutningskerfi um allt land og ryðja þannig braut að grænni iðnaðaruppbyggingu og orkuskiptum. […]

Ísland á að vera leiðandi í orkuskiptum á heimsvísu á grunni nýtingar endurnýjanlegra náttúruauðlinda og verða fyrst landa til að verða óháð jarðefnaeldsneyti.“

Hér er síðan hluti af ályktunum umhverfis- og samgöngunefndar Sjálfstæðisflokksins sem samþykktar voru á landsfundinum okkar um síðustu helgi:

„Loftslagsbreytingar sökum of mikils koldíoxíðs í lofti og sjó er ein stærsta ógnin við öryggi og efnahag þjóðarinnar. Metnaðarfull markmið Íslands um samdrátt í losun og bindingu kolefnis og markmið um kolefnishlutleysi kalla á skýra sýn og nálgun sem á að byggja á frumkvæði og framtaki einstaklinga og atvinnulífs. […]

Íslendingar eiga að beita sér af fullum krafti fyrir verndun lífríkis sjávar, þar á meðal aðgerðum sem beinast gegn súrnun og hækkun hitastigs, enda eigum við mikið undir gjöfulum auðlindum hafsins. […]

Ljóst er að á næstu árum munu eiga sér stað grundvallarbreytingar á hagkerfum heimsins sökum loftslagsbreytinga og vegna viðbragða stjórnvalda, atvinnulífs og einstaklinga við þeim. (Forseti hringir.) Ísland býr að einstökum náttúruauðlindum, aðgengi og þekkingu á hafinu, sterku vísinda- og frumkvöðlasamfélagi og ímynd um sjálfbærni og er því í kjöraðstöðu til að vera leiðandi í uppbyggingu á nýjum iðnaði á sviði föngunar, förgunar og nýtingar kolefnis. […] (Forseti hringir.)

Hryggjarstykkið í því að ná markmiðum í loftslagsmálum er öflugt flutningskerfi raforku.“

Forseti. Ég hef lokið máli mínu en geri þá athugasemd að ég held að tíminn hafi verið kominn eitthvað af stað áður en ég hóf ræðuna.