153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjáraukalög hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir það sem ég náði út úr ræðu hennar sem virkilega glaðvakti mig þar sem ég sat hérna við borðið. Hv. þingmaður er formaður fjárlaganefndar og sjaldan hef ég heyrt fegurri tón koma úr þessum ræðustóli frá ríkisstjórnarliðinu heldur en þegar hv. formaður fjárlaganefndar sagði að hún myndi leggja það til og a.m.k. skoða mun betur hvort ekki væri hægt að gera betur fyrir bágstaddasta fólkið okkar núna fyrir jólin. Þetta vekur í rauninni væntingar. Þetta vekur mér von, virkilega, virðulegi forseti.

Í fjáraukalögunum kemur fram að útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukast um 4,5 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu. Þar vegur þyngst annars vegar 2,9 milljarða kr. hækkun á málefnasviði 27, sem er málefnasvið örorku og málefni fatlaðs fólks, vegna hæstaréttardóms sem ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann flutti frumvarpið til fjáraukalaga. Þessi hæstaréttardómur var um það að óheimilt væri að skerða framfærsluuppbót örorku- og ellilífeyrisþega á þeim forsendum að einstaklingur hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Hins vegar tölum við um 3% hækkun bóta almannatrygginga og hækkun barnabóta sem lið í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar á árinu til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þar í voru lagðir um 1,6 milljarðar kr. Spáir einhver í alvöru í það hve mikið af þessum 1,6 milljörðum kr. skilaði sér beint í ríkissjóð aftur? Veltir einhver því upp hvað þessir þúsundkallar sem þessi 3% gáfu fátækasta fólkinu okkar — hvað komu raunverulega margar krónur á mánuði í vasa þeirra, og það í blússandi verðbólgu? Þau greiða náttúrlega skatta af þessu því að þessari ríkisstjórn er umhugað um það nú sem endranær að halda áfram að skattleggja fátækt og sárafátækt. Það er eitt að segja: Gjörðu svo vel elsku vinur, ég ætla að gefa þér 10.000 kr., en ætla samt sem áður að taka helminginn af því til baka af því að þetta er nú kannski aðeins of vel í lagt.

Á móti þessum auknu útgjöldum vegur lækkun vegna endurmats. Og takið nú eftir: lækkun vegna endurmats á nýliðun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að sú lækkun sé hvorki meira né minna en 4,1 milljarður kr. Ráð var fyrir gert að þurfa að greiða samtals um 4,1 milljarði kr. meira í sambandi við nýgengi örorku en raun bar vitni. Staðreyndin er jú sú, og ég veit ekki hvort ég er að upplýsa um eitthvert leyndarmál þegar ég nefni það, að ég hef verið að hjálpa nokkrum einstaklingum sem virkilega hafa verið að glíma við Tryggingastofnun, einstaklingum sem hafa gjörsamlega orðið óvinnufærir, slitið vöðva, farið í aðgerð, eru í sjúkraþjálfun, endurhæfingu og ég veit ekki hvað og hvað, en komast einhverra hluta vegna ekki inn á endurhæfingarlífeyri, hvað þá örorku. Þannig að ég er farin að halda að þessi mikli ótti við nýgengi örorku, og hvað ríkissjóður þurfi að borga ofboðslega mikið hvað það varðar, sé bara að verða þess valdandi að það séu hreinlega komnir það margir slagbrandar til Tryggingastofnunar að þeir séu nánast búnir að slengja í lás. Þannig að mín fyrirspurn á eftir að verða — og fá skriflegt svar við því — hvað raunverulega er mikið sótt um og hvað er tekið mark á mörgum, jafnvel þó að það séu tíu læknisvottorð og alls konar pappírar sem fylgja viðkomandi umsókn en er hent í ruslið virðist vera í Tryggingastofnun sjálfri.

Í þessu tilviki hefðum við í Flokki fólksins hiklaust tekið þennan 4,1 milljarð kr. og fært peningana þangað sem þörfin er mest fyrir þá, til öryrkjanna, beinustu leið til þeirra. Það er algerlega morgunljóst og öllum ljóst að þrátt fyrir að hér sé endalaust verið að hrópa af hæstv. fjármálaráðherra og fleirum að jöfnuður mælist hvergi meiri en á Íslandi þá vil ég einfaldlega benda á einföldu reikniformúluna hvað lýtur að því að finna meðaltalið, finna meðaltalið og finna jöfnuðinn. Einstaklingur með tvær milljónir á mánuði og annar með 300.000 á mánuði, þeir eru nefnilega með alveg rosalega góð laun, þeir eru með 1.150.000 kr. að meðaltali. Hugsið ykkur. Það er mikill jöfnuður í þessu. Það er hægt að jafna ýmislegt út og teygja þetta í allar áttir til að fá einhverjar tölur sem sýna fram á að þetta sé alveg frábært. Ég gef lítið fyrir OECD þegar verið er að tala um þennan jöfnuð vegna þess að við vitum að það eru tugþúsundir Íslendinga sem eiga um sárt að binda og núna í verðbólgunni bendir allt í átt að því að mjög margir eigi eftir að fara undir hamarinn, eins og var hér í hruninu 2008, og missa eignirnar sínar vegna þess að þessi ríkisstjórn gerði ekki nokkurn skapaðan hlut til að girða fyrir það, gerði ekki nokkurn skapaðan hlut í forvörnum miðað við það að allt landslag var í áttina að því að hér kæmi verðbólguskot. Og það er ekki bara verðbólguskot, það er bara brjáluð verðbólga í gangi í landinu í dag. Það er ekki flóknara en það.

Í staðinn fyrir að setja þessa milljarða sem urðu allt í einu afgangs, af því þeir passa sig á því að reyna að koma í veg fyrir að nokkuð komist inn í almannatryggingakerfið eins og það er uppbyggt í dag, þá á að nota þessa peninga til þess að greiða skuldir ríkissjóðs gagnvart þessum einstaklingum sem Hæstiréttur dæmdi núna 6. apríl sl. að ríkið hefði brotið á. Í stað þess að fara í hinn svokallaða varasjóð eins og venjan er til að greiða afglöp ríkisins þá á núna að fara í þessar umframkrónur sem var gert ráð fyrir að þyrfti að setja í almannatryggingakerfið. Það var ekkert ófyrirséð hvað varðaði þetta mál sem féll hjá Hæstarétti 6. apríl sl., ekki neitt. Það er ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Það er ekkert sem réttlætir það að slengja þessum fjármunum inn í fjárauka, ekki neitt. Þetta var vitað. Þetta var algerlega uppi á borðinu og ríkið búið að þvælast á milli í öllu dómskerfinu til að reyna að koma í veg fyrir að búsetuskerðingar yrðu dæmdar ólöglegar, til að geta haldið áfram að níðast á þeim sem höfðu fæstu krónurnar á milli handanna. Nákvæmlega þannig.

Flokkur fólksins og ég sjálf er með breytingartillögu við fjáraukann sem var verið að dreifa hérna rétt áður en ég kom í ræðustólinn. Þetta er í rauninni fyrsta skrefið mitt í breytingartillögum sem við munum gera, Flokkur fólksins, við þetta fjáraukalagafrumvarp. Ég mæli fyrir þessari breytingartillögu. Lagt er til að auka framlög á málefnasviði 27 um 800 millj. kr. og jafnframt framlög á málefnasviði 28 um 360 millj. kr. Tillagan felur í sér fjárheimild fyrir 60.000 kr. eingreiðslu í desember 2022 til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, líkt og þeir hafa fengið undanfarin ár, og að hafa þetta skatta- og skerðingarlaust. Frumvarp ráðherra leggur til að eingreiðslan í ár verði skert um helming, úr 53.100 kr. í 27.772 kr. Það er með öllu óboðlegt að skera niður eingreiðslu til öryrkja um jólin, sérstaklega í ljósi þess að verðlag hefur hækkað svo um munar, auk þess sem útgjöld vegna örorku almannatrygginga eru 4 milljörðum krónum lægri í ár en áætlað var í fjárlögum, eins og ég minntist á áðan. Einnig er lagt til að eingreiðsla verði veitt til þeirra 6.000 ellilífeyrisþega sem lökust hafa kjörin, sem einnig verði undanþegin skerðingum og skattlagningu enda ljóst að margir ellilífeyrisþegar eru jafn illa settir og efnaminnstu öryrkjarnir og algerlega óverjandi að mismuna að þessu leyti. Lagt er til að fjárhæð eingreiðslunnar hækki úr 53.100 kr., sem var í desember árið 2021, í 60.000 kr., með tilliti til verðlagsþróunar.

Heildarkostnaðurinn við þetta er viðbót upp á ríflega einn milljarð sem, eins og sjá má, gæti skipt öllu máli fyrir þennan fátækasta þjóðfélagshóp, gæti skipt öllu máli fyrir þau þegar kemur að jólunum sem eru fyrirkvíðanleg. Þau eru fyrirkvíðanleg. Það er engin gleði hjá fátæku fólki þegar dregur að jólum, það er engin gleði hjá efnalitlum foreldrum þegar líður að jólum, engin, það er engin tilhlökkun. Og hér tala ég af eigin reynslu. Það er ömurlegt að standa í þeim sporum að geta ekki tekið þátt í lágmarksundirbúningi jólanna, geta ekki einu sinni keypt sér eina jólaseríu í herbergisgluggann hjá barninu sínu, að geta ekki keypt handa því nýja skó fyrir jólin. Það er ömurlegur staður að vera á og enn þá ömurlegra að geta ekki sett pakka undir jólatréð. En svona er nú Ísland í dag. Þannig að betur má ef duga skal.

Viðbótarbreytingin sem er fyrirhuguð frá hendi okkar í Flokki fólksins og verður tekin fyrir núna í fjárlaganefnd er eins og við höfum gert undanfarin ár. Við köllum á aukafjárveitingu til hjálparstofnana sem miðla matargjöfum til þeirra sem hafa ekki ráð á því að kaupa sér mat á diskinn af því að þeim er haldið í slíkri fátækt af þessum stjórnvöldum. Síðast en ekki síst vantar 300 millj. kr. í starfsemi SÁÁ til að þau geti haldið sjó og tekið á móti því fólki sem situr grátbiðjandi um hjálp á biðlistum. Það er með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig við getum horft fram hjá því hvað margir eiga bágt í samfélaginu og hvernig okkur væri í lófa lagið að laga þessa hluti. Það stendur enn þá út af t.d. að greiða til SÁÁ þá fjármuni sem þau eru búin að bíða eftir allt þetta ár, 2022. Eins og þau hafi það mikið að þau geti bara beðið þangað til á næsta ári eða kannski bara þangað til ég veit ekki hvenær. En þetta hefur verið viðtekin venja. Það sem ég man þegar ég sat í fjárlaganefnd er að ég barðist og barðist og barðist fyrir því að það sem löggjafinn hafði samþykkt, það sem fjárveitingavaldið hafði samþykkt, skilaði sér þangað sem þörfin var fyrir það.

Virðulegi forseti. Ég segi: Það er sárara en tárum taki að maður skuli þurfa að koma hingað upp og óska eftir svona nauðsynlegum umbótum inn í samfélagið, inn í heilbrigðiskerfið okkar og fyrir fólkið okkar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri svo sem allt önnur saga að í þessum fjárauka væri óskað eftir auka 6 milljörðum kr. til að kaupa í glæsihöll Landsbankans niður á Austurbakka, þar væri verið að fjárfesta. Fjárfestum í fólki fyrst. Fjárfestum í mannauðnum sem felst í fólkinu okkar. Forgangsröðum fjármunum fyrir fólkið fyrst og kaupið svo steinkumbalda, snobbvillur, eins og mér finnst þessi Landsbanki vera þarna niðri á Austurbakka á örugglega dýrustu lóð á öllu landinu. Það er sjálfsagt ekki nógur gróðinn náttúrlega. Maður er mergsoginn svoleiðis af þessu bankakerfi að það verður náttúrlega að vera einhver glæsihöll utan um alla svívirðuna sem er höfð í frammi hjá þessu bankakerfi gagnvart fólkinu í landinu.

Svo einkennilegt sem það er, og hefði kannski verið ráð að ræða það betur og við ættum kannski að taka sérstaka umræðu um það hér í þessum æðsta ræðustól landsins, þá eru bankarnir, þrátt fyrir verðbólgu sem var nú í síðasta mánuði 9,4%, þrátt fyrir hækkandi vexti sem nú eru komnir almennt á milli 7% og 8%, að taka til sín enn þá fleiri prósentur, enn þá fleiri prósentur en sem nemur verðbólgunni og raunverulegum vöxtum. Hvernig má það vera? Það er verðugt rannsóknarefni, svo að ekki sé meira sagt. En ég bind miklar vonir við nýjan formann fjárlaganefndar. Ég var áður með hæstv. heilbrigðisráðherra, hann var formaður fjárlaganefndar, frábær formaður fjárlaganefndar, og ég trúi því af öllu hjarta að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, núverandi formaður fjárlaganefndar, muni gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hjálpa mér og okkur hinum að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum fyrir jólin.