153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég hafði vonast til þess að hæstv. fjármálaráðherra væri hér og hlustaði á þær umræður sem hér fara fram þannig að við gætum jafnvel fengið svör við einhverjum af þeim spurningum sem við höfum.

En í umræðum um fjárlög næsta árs fyrr í haust lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um hvort kostnaður við stuðning Íslands við Úkraínu yrði ekki sérstaklega fjármagnaður í fjárauka í stað þess að taka þann pening frá annarri mikilvægri mannúðar- og þróunaraðstoð. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn minni á eftirfarandi veg, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst alveg ótvírætt að Alþingi geti með fjáraukalagaheimild bætt í stuðninginn á árinu 2022. Það er augljóst öllum að það var ófyrirséð þegar fjárlög þessa árs voru sett saman að það myndi reyna á slíka alþjóðlega aðstoð. Mér finnst ég einfaldlega skynja hér á þinginu mjög mikinn og eindreginn þverpólitískan stuðning við að senda skýr skilaboð, m.a. með fjárframlögum en ekki bara með yfirlýsingum, að þeim sé fylgt eftir með virkum hætti.“

Það er ánægjulegt að sjá að í fjáraukalögum er meira fjármagn sett í stuðning vegna komu flóttamanna frá Úkraínu og að þar er vonandi verið að dekka nær allan kostnaðinn með nýju fjármagni. Það er hins vegar sorglegt að sjá að ekki er slíkt hið sama gert þegar snýr að mannúðar-, þróunar- og efnahagsstuðningi við Úkraínu. Samkvæmt fylgiskjali með fjáraukalögunum hafa íslensk stjórnvöld lofað slíkum stuðningi við Úkraínu upp á alls um 1.030 millj. kr. Auk þessara 1.030 millj. kr. er kostnaður við flutning á hergögnum skráður sem þróunaraðstoð upp á 153 milljónir. Þetta er ofan á þær 250 milljónir sem skráðar eru á málefnasvið 04.30, varnarmál, og ég er ekki viss um að það standist alþjóðlegar skilgreiningar eða jafnvel lög að kostnaður við flutning á hergögnum sé skilgreindur sem þróunarsamvinna og tel ég að væntanlega þurfi að flytja þennan kostnað yfir á lið 04.30.

Eins og ég sagði þá er heildarstuðningurinn við Úkraínu þegar kemur að mannúðar-, þróunar- og efnahagsstuðningi um 1.030 milljónir en í fjáraukalögunum er hins vegar aðeins veittur 400 millj. kr. auki við málefnasviðið. Þar sem þessar 153 milljónir eru líka þarna inni þá má segja að 783 millj. kr. séu teknar af annarri þróunar- og mannúðaraðstoð sem gert hafði verið ráð fyrir á árinu og eins og bent er á í fjáraukalögunum og fylgiskjalinu með þeim þá er mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu fjármagnaður af þróunarsamvinnufé, og svo ég noti orðalagið sem kemur í fjáraukalögunum, með leyfi forseta: Þetta er fjármagnað „af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna.“

Þetta gengur þvert á yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra fyrr í haust þar sem talað var um að önnur verkefni myndu ekki líða fyrir Úkraínustríðið. Næg er þörfin eins og sést í auknum fjölda loftslagstengdra hamfara víða um heim, svo ekki sé talað um þá hungursneyð sem nú fer vaxandi í Afríku og Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir. Þó svo að við viljum gera Úkraínu vel þá má það aldrei verða á kostnað annarra brýnna verkefna og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra og hv. fjárlaganefnd að standa við gefnar yfirlýsingar og tryggja að fólk í neyð víða um heim líði ekki fyrir þetta stríð í okkar bakgarði.

Það er annað málefnasvið sem ég tók eftir að nokkrar breytingar voru á. Þær falla annars vegar undir sjávarútveg og hins vegar landbúnað. Þar er verið að skera niður framlög til nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, annars vegar um 100 milljónir til sjávarútvegs og 20 milljónir til landbúnaðar og ástæðan sem var gefin er að þessar 120 milljónir þyrftu að fara í aukinn kostnað vegna sameiningar ráðuneyta. Það að skorið sé niður í nýsköpun á þessum mikilvægu sviðum til þess eins að ráðuneyti geti stækkað er algjörlega óásættanlegt. Það er von mín að hæstv. fjármálaráðherra og hv. fjárlaganefnd skoði þessi mál nú eftir 1. umr. Ef ekki, þá mun ég senda inn breytingartillögur til að laga þessi mál.