153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

132. mál
[15:42]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir framsögu þessa máls, það er svo sannarlega mikilvægt að hugsa út fyrir boxið þegar kemur að því að stytta þá biðlista sem eru til staðar. Mig langaði í fyrri spurningunni aðeins að spyrja hvað hv. þingmaður telur að stoppi þessa breytingu innan ríkisstjórnarinnar? Nú eru alla vega einhverjir flokkar þar inni sem tala um frelsi, hafa jafnvel talað um einkarekna þjónustu og við sáum líka á síðasta kjörtímabili að leitað var til einkaaðila þegar kom að því að tryggja þjónustu á tímum heimsfaraldursins, þá virtist það ekki vera vandamál. Er hræðsla við að það verði einhver flótti af ríkisstofnunum, að læknarnir sem framkvæma þetta þar muni allir fara í einkageirann, er það kannski ástæðan? Ég hefði haldið að kostnaðurinn við að senda fólk út bættist ofan á. Ég held líka að í sumum af þessum aðgerðum þurfi eftirfylgni í marga mánuði og jafnvel ár á eftir og maður hefði haldið að það yrði miklu flóknara ef aðgerð var framkvæmd af einhverjum aðila erlendis. Að lokum varðandi EES, má ríkið bara semja við erlenda aðila en ekki innlenda?