153. löggjafarþing — 30. fundur,  14. nóv. 2022.

aðgerðir í þágu kolefnishlutleysis.

[15:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að þessi samanburður er ekki alltaf einfaldur. Þegar við erum t.d. að flytja matvæli hálfan hnöttinn þá getur verið að kolefnisfótsporið þar sem þau eru framleidd sé kannski ekki mjög hátt en þá á eftir að taka flutninginn með í reikninginn. Síðan verðum við bara að muna að losunarprófíll, eins og það er nú kallað á mjög slæmri íslensku — eða já, losun ólíkra landa getur verið mjög ólík. Í tilfelli Íslands stöndum við frammi fyrir því að töluverður hluti af okkar losun er vegna þess að við erum með land sem er lítið gróið. Þess vegna hafa stjórnvöld einmitt verið að leggja áherslu á landgræðslu, skógrækt og annað slíkt til að koma í veg fyrir losun frá ógrónu landi. Ég held því að það sé erfitt að gera þessu fullkomin skil í stuttri fyrirspurn. Hv. þingmaður spyr hér út í þessi mál og ég vil bara ítreka að okkar markmið í loftslagsmálum þurfa líka að ríma við önnur markmið þegar kemur að matvæla- og fæðuöryggi. Ég held að það svari kannski þessari síðari spurningu.