Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[14:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis. Samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda er hann trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins. Hann hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Samt erum við að fá hérna skýrslu sem framkvæmdarvaldið bað um, sendi beiðni til fulltrúa Alþingis, löggjafarvaldsins, um eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í rauninni er beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins um eftirlit með sjálfu sér. Það hefur komið fram í umræðu að sambærilegir umboðsmenn á Norðurlöndum eru á móti þessu fyrirkomulagi af því að það býður upp á að framkvæmdarvaldið drekki í rauninni umboðsmanni Alþingis, þótt hann starfi sjálfsögðu á eigin vegum og sé sjálfstæðar í sínum störfum. Þetta er áhugavert atriði sem þarf að skoða, held ég, af hverju framkvæmdarvaldið, ráðuneytið með alla sína lögfræðinga og fjárheimildir og ég veit ekki hvað, þurfi endilega að leita til stofnunar Alþingis til að fá álit á sínum störfum. Af hverju þarf að grípa fram í fyrir frumkvæði þingsins sem á að leita til síns trúnaðarmanns varðandi svona atriði? Hvaða áhrif hefur það á heildarsýn þessa máls að ráðherra geti komið og sagt: Ég hafði nú frumkvæðið að því að leita eftir þessu, eins og það sé vörn eða einhvers konar sakleysi? Mér finnst það mjög varhugavert að við séum sett í þessa stöðu aftur í rauninni. Þetta átti líka við um skýrsluna varðandi eignir úr aflandsfélögum, á öðrum forsendum en er sambærilegt.