Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:14]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda áfram með einhverjar hártoganir okkar á milli um orð ríkisendurskoðanda þar sem hann er ekki hér. Mér finnst augljóst að í þessari vinnu allri er ekki útistandandi einhvers konar möguleg lögbrot af hálfu ráðherra en ég heyri að aðrir eru ósammála mér um það og þá verður bara svo að vera að sinni. Annað sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu sem mig langaði aðeins að nefna er þetta með erlendu aðilana, sem mér fannst hv. þingmaður gera svolítið lítið úr í sinni ræðu. En það var kannski bara mín tilfinning. Hv. þingmaður spyr í sinni ræðu hvort það væri eitthvert annað markmið en að fá hæsta verð sem skipti máli og hvaða markmið það ætti að vera. Ég ætla þá að leyfa mér að vísa í ræðu hæstv. ráðherra hér áðan þar sem farið var yfir þau markmið sem tekin eru fram varðandi þessa sölu í greinargerð ráðherra, sem er það undirliggjandi plagg sem skiptir máli lagalega í þessari framkvæmd allri og er það plagg sem þingnefndirnar báðar fengu til umsagnar. Þar kemur fram að þetta eru að lágmarki fimm markmið, að mig minnir, m.a. fjölbreytt og dreift eignarhald. Það er auðvitað algerlega augljóst að það hefði verið lítið vandamál að selja allan bankann, allan hlutinn, til hæstbjóðanda. Það hefði ekki verið neitt vandamál. Ástæðan fyrir að það er ekki gert er út af því að verið er að vinna með önnur markmið eins og kom fram og hefur alltaf komið fram af hálfu ráðherra, sem er eignarhaldið, hugsa um eftirmarkaðinn, reyna að finna út langtímafjárfesta frekar en skammtímafjárfesta o.s.frv. Það getur enginn fullyrt um eitt né neitt, (Forseti hringir.) það er ekkert af þessu 100% gefið. En þetta eru vísbendingar og markmið sem var unnið með og þau lágu fyrir og mér finnst pínu skrýtið að hv. þingmaður ýi að því að hæsta verð hafi verið það eina sem átti að gilda.