Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sína góðu ræðu. Eftirlit Ríkisendurskoðunar gagnvart stjórnvöldum í umboði Alþingis lýtur að fjárreiðum ríkisins skv. 43. gr. stjórnarskrár og 3. gr. laga nr. 46/2016. Eftirlit Ríkisendurskoðunar lýtur einmitt ekki að því hvort starfsemi stjórnvalda fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, hvort ráðherra ræki starfsskyldur sínar, hvort ráðherra fylgi t.d. hæfisreglum stjórnsýsluréttarins sem hv. þingmaður kom hér inn á og hvort ráðherra fylgi skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins, t.d. um rannsóknarregluna sem margt bendir til að hafi verið þverbrotin í þessu ferli. Ég ætla bara að segja það upphátt.

Slíkt eftirlit er auðvitað á hendi annarra aðila, t.d. umboðsmanns Alþingis og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða rannsóknarnefndar samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir, eftir atvikum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur mjög sérstakar hugmyndir um Ríkisendurskoðun og hlutverk þeirrar stofnunar hér í dag og sá vinkill hans kom mér svolítið á óvart. Það er eins og hann líti svo á að Ríkisendurskoðun eigi að þjóna sem einhvers konar rannsóknarréttur um öll möguleg atriði, ekki bara atriði er varða fjárreiður ríkisins heldur um starfsskyldur ráðherra almennt. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá er það þannig að vegna þess að Ríkisendurskoðun notar ekki orðið lögbrot í sinni skýrslu þá hljóti niðurstaða stofnunarinnar að vera einn allsherjarsýknudómur yfir vinnubrögðum hæstv. ráðherra. Mér þætti fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni, sem hefur talsverða þingreynslu, bæði hér og af Evrópuráðsþinginu og er mikil áhugakona um þingeftirlit, hvað henni finnst um þessar frumlegu hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra um hlutverk Ríkisendurskoðunar í íslenskri stjórnskipan?