Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[16:38]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni að það kæmi mér ekkert á óvart að nú væri enginn vilji til að koma á fót rannsóknarnefnd Alþingis eins og stórkarlalega var lýst yfir í vor að stæði til að gera ef einhverjar spurningar væru eftir. Það kom mér heldur ekki á óvart að ráðherra skyldi stökkva á skýrslu Ríkisendurskoðunar og segja: Heyrðu, þetta mál er afgreitt, við þurfum ekki neina rannsóknarnefnd. Þetta var algerlega fyrirsjáanlegt og nákvæmlega til þess var leikurinn gerður. Ríkisendurskoðandi, sem hefur afmarkað hlutverk til að kanna afmarkaða hluti, var settur í að kanna þennan afmarkaða hlut. Hann á allt í einu að vera nóg til þess að svara öllum þeim spurningum sem upp vakna við miklu stærra atriði og miklu stærri sögu. Eins og ég segi þá var þetta algjörlega fyrirsjáanlegt.

Ég spáði því, þegar stjórnarliðar komu hingað upp hver á fætur öðrum og lýstu því yfir að hér yrði skipuð rannsóknarnefnd ef einhverjar spurningar stæðu eftir, að engin innstæða yrði fyrir þessu þegar á hólminn væri komið. Þetta var bara tafaleikur og nú á málinu vera lokið. Það er ekki þannig, en það er augljóslega ætlun stjórnarliða að svo sé.