Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[17:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þetta er orðið dálítið sorglegt hjá stjórnarandstöðunni í dag. Það byrjaði með því að slegið var upp að ríkisendurskoðandi hefði ekkert metið hvort skýrslan geymi athugun á því hvort lögum og góðum stjórnsýsluháttum hafi verið fylgt, að því hafi bara verið sleppt, sem er svo fráleitt að manni fallast hendur hér á Alþingi yfir því að menn haldi þessu fram í fullri alvöru. En þegar menn grípa í tómt með þetta og finna ekkert annað til að tala um, jafnvel þótt forseti hafi ákveðið að taka heilan dag í umræðu um þessa skýrslu, er farið út í þref um fundarstjórn og að einstaka ráðherrar séu ekki mættir.

Hér hafa komið nokkrir þingmenn og kallað einn fjarverandi ráðherra bankamálaráðherra. Ég ætla að gera athugasemd við fundarstjórn, að þetta sé ekki leiðrétt, af því að ráðherrann sem verið er að vísa til er sannarlega ekki bankamálaráðherra. Hann hvorki heitir bankamálaráðherra neins staðar né heyra bankamál undir ráðherrann.