Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[18:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir spurninguna og innleggið í þessa umræðu. Jú, auðvitað er þetta þannig. Við erum eiginlega bara á nákvæmlega sama stað. Skýrslan tekur í meginatriðum undir alla þá gagnrýni sem fram kom hér í vor. Skýrslan leiðir það líka í ljós að ríkisendurskoðandi verður að takmarka rannsókn sína við ákveðna hluti og þar er t.d. ekki farið í hina pólitísku ábyrgð eða það hvernig ákvörðunarferlið allt saman var. Skiptir það einhverju máli? Já, auðvitað skiptir það máli. Við erum í stjórnmálum. Almenningi kemur það við hvernig við högum vinnu okkar.

Ég held, og ég nefndi það svo sem í umræðum fyrr í dag, að við séum í þeirri stöðu núna að við erum búin að sóa núna nokkrum verðmætum mánuðum sem hefðu getað farið í vinnu rannsóknarnefndar sem hefur auðvitað miklu meiri burði til þess að fara yfir svona mál heildstætt. Þá erum við á einum og sama stað um pólitíska ábyrgð og það hvað stjórnmálamennirnir segja og gera og taka ákvarðanir um. Við erum þá auðvitað líka með framkvæmdina sjálfa og við erum þá auðvitað líka með söluráðgjafana þar undir og allt sem lýtur að þeim. Og svo finnst mér ekki síður vert að taka til skoðunar í því samhengi hvernig staðið var að því að leggja niður Bankasýslu ríkisins með einu pennastriki yfir nótt án þess að um það færi fram nokkur einasta umræða af viti í ríkisstjórn eða í þingflokkum stjórnarflokkanna.

Þannig að jú, við erum á nákvæmlega sama stað. Þetta er nefnilega alveg ótrúlegt mörgum mánuðum síðar, hálfu ári síðar eða hvað það er, eftir heila rannsókn ríkisendurskoðanda erum við á nákvæmlega sama stað, eftir sjö, átta mánaða rannsókn, eða hvað hún tók langan tíma. Við erum á nákvæmlega sama stað nema við erum með það skýrt á blaði að söluferlið og undirbúningurinn stenst ekki skoðun. Þetta eru ekki léttvægar athugasemdir. Þetta eru ekki einhverjar krúsídúlluleiðbeiningar til okkar allra svo við getum öll lært af þessu, eins og er oft pólitíski frasinn hér (Forseti hringir.) þegar ráðherrar tala í þessari pontu. Það er ekki okkar hinna sem komum ekki (Forseti hringir.) að ákvörðunum að læra af þessu, það er ráðherranna, og það er líka ráðherranna að kunna að axla sína pólitísku ábyrgð (Forseti hringir.) þó að ekki væri nema bara með því að láta verk sín verða (Forseti hringir.) til skoðunar hjá rannsóknarnefnd.