Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:09]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér finnst mér öllu snúið á hvolf. Hér er talað um að fjármálaráðherra beri ekki skynbragð á að selja banka, að hann hafi ekkert að segja, að hann hafi eigin hagsmuni hér að leiðarljósi og sé á flótta. Ég ætla að vísa þessu öllu aftur til föðurhúsanna, til formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur. Ég vil fá að draga hér fram í dagsljósið að þann 7. apríl sl. óskaði fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir því að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á því hvort salan samrýmdist lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Síðan tekur embætti ríkisendurskoðanda málið að sér. Rannsóknin „tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti“. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Ríkisendurskoðun. Getur hv. þingmaður sagt að hér hafi lög verið brotin?