Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[19:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög yfirgripsmikla og fína ræðu. Það var mjög áhugavert að heyra samjöfnuðinn á 3. gr. annars vegar og síðan því orðalagi og þeim athugasemdum sem ríkisendurskoðandi nefnir. Þar fannst mér mjög áhugaverð, sterk og kjarnyrt yfirferð. En í ræðu hv. þingmanns var líka talað svolítið um ábyrgð, pólitíska ábyrgð. Ég er eiginlega hingað kominn til að nefna, af því að við höfum verið að tala um varaformann Framsóknarflokksins sem gagnrýndi söluferlið eftir á, að hún talaði þá um að það væri ekki bara Bankasýslan sem bæri ábyrgð, stjórnmálamennirnir bæru líka ábyrgð. Í dag er hins vegar sagt að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafi axlað pólitíska ábyrgð með því að láta aðila rannsaka söluna sem skoðar ekki pólitíska ábyrgð.

Ég ætlaði aðeins að reyna að fá það fram hjá þingmanni hvort hann sé sammála mér í því að þetta sé einhvers konar Evrópumet í ábyrgðarflótta.