Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[20:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er ómerkilegur útúrsnúningur að segja að þáttur ráðherra sé ekki skoðaður. Samt má ekki vera með gífuryrði, það er nú merkilegt. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvar í skýrslunni er fjallað um hæfi ráðherra? Hvar er sá kafli? Ég finn hann hvergi. Það er engin umfjöllun um það hvernig ráðherra beri ábyrgð á sínum þáttum, hverjir þættir ráðherra voru, hvaða eftirliti hann átti að sinna og greining á því hvort ráðherra sinnti þeim atriðum eða ekki. Það bara vantar. Það þarf ekki annað en að lesa skýrsluna til að sjá að það vantar. Annars myndi maður finna það í skýrslunni.

Hitt sem hv. þingmaður talaði um var að armslengdin væri svo flókin. Nei, hún er ekkert rosalega flókin. Í lögunum er sérstaklega fjallað um það hvenær ráðherra er ekki með málið á sínu borði og hvenær ráðherra fær málið á sitt borð. (Forseti hringir.) Armslengdin snýst um að hann skipti sér ekki af málinu þegar það er ekki á sínu borði en skipti sér tvímælalaust af því þegar hann á að taka ákvörðun (Forseti hringir.) út frá rökstuddu mati um það hvort eigi að selja eða ekki.