Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[21:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því að í þessari 4. gr. er annars vegar mælt fyrir um að Bankasýsla ríkisins skili ráðherra rökstuddu mati á tilboðum. Svo tekur ráðherra ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða hafnað. Nú liggur fyrir skýrsla Ríkisendurskoðunar sem staðfestir að þetta rökstudda mat sem ráðherrann tók við var í algeru skötulíki. Það var enginn rökstuðningur fyrir lokaákvörðun um verð, eins og það er orðað í skýrslunni. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvort hún teldi eðlilegt að ráðherra tæki svona ákvörðun án þess að búa raunverulega yfir því rökstudda mati sem mælt er fyrir um í lögunum að hann eigi að búa yfir og afla sér. Það kemur alveg skýrt fram að hann fékk ekki rökstuðning fyrir lokaákvörðun um verð og hann bjó heldur ekki yfir upplýsingum um tilboð eða tilboðsgjafa eins og hefur komið fram fyrir löngu og heldur ekki nákvæmum upplýsingum um samsetningu kaupendahópsins. Þess vegna velti ég því upp hvort það væri eðlilegt og til eftirbreytni að taka svona meiri háttar ákvörðun án þess að hafa aflað þeirra gagna sem mælt er fyrir um í lögunum að ákvörðunin byggi á. Ég spyr hér í seinni atrennu: Ef ekki er hægt að gera þá kröfu til ráðherra að hann byggi á rökstuddu mati og afli rökstuðnings og afli þeirra upplýsinga sem þörf er á og leggi mat á þær og framkvæmi einhverja lágmarksrannsókn, eins og tíðkast almennt í stjórnsýslu þegar verið er að taka meiri háttar ákvarðanir, til hvers er þá mælt fyrir um að Bankasýslan skili ráðherra rökstuddu mati? Til hvers er þessi fyrri hluti þá í ákvæðinu?