Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ef við ætlum að eiga málefnalega umræðu um þetta mál þá væri gríðarlega hjálplegt ef stjórnarliðar sumir hverjir, ráðherra meðal annarra og hv. þingmaður núna, myndu bara nefna þá sem segja að fjármálaráðherra eigi að handvelja einhverja tilboðsgjafa. Þeir einu sem ég veit að hafa sagt það eru hv. þingmaður, ráðherra og nokkrir aðrir stjórnarliðar, en enginn úr stjórnarandstöðunni. Stjórnarandstaðan hefur alltaf minnt á það að þegar ráðherra á að sinna eftirlitsskyldu sinni þá snýst það aldrei um að handvelja einn tilboðsgjafa umfram annan, aldrei. Ef stjórnarliðar gætu vinsamlegast hætt að leggja stjórnarandstöðunni orð í munn þá væri það mjög vel þegið.