Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í vor voru uppi ýmsar vísbendingar um hagsmunaárekstra meðal t.d. söluaðila, þeir voru að selja sjálfum sér. Það er áhugavert og ég held að hv. þingmaður geti verið sammála mér um að það sé mjög varhugavert í svona ferli. Hagsmunaárekstrar eru eitthvað sem við könnumst mjög vel og innherjaupplýsingar og svoleiðis eru viðkvæmur málaflokkur. Við vorum með vísbendingar um að slíkt hefði gerst. Það er í rannsókn hjá Fjármálaeftirlitinu. Við erum einnig með þær upplýsingar, það stendur á blaði fyrir framan okkur, að faðir fjármálaráðherra keypti hlut í Íslandsbanka. Það vekur óhjákvæmilega upp spurningar um hæfi fjármálaráðherra til að selja föður sínum þann hluta. Við getum ekki bara afneitað því. Þetta var ekki opið söluferli. Þetta var lokað söluferli. Það var mjög skýrt hjá Bankasýslunni að það væri tæknilega fyrirkomulagið á þessu, sumir komast að en aðrir ekki. Það er skilgreiningin á lokuðu ferli. Við hljótum að spyrja okkur einmitt um það. Þarf ekki að rannsaka hvort það eigi við eða ekki? Og ef hér er um að ræða hagsmunaárekstur þá er það mjög alvarlegt og þá er mjög eðlilegt að nota stór orð. Að sjálfsögðu eru það orð sem maður leggur ákveðið gildismat á, ég nota t.d. orðið drasl mjög oft, sumir leggja meiri merkingu í það orð og finnst það alvarlegra en mér. Fólki er frjálst að móðgast yfir því að ég kalli hitt og þetta drasl. Ég held samt áfram að nota það, eins og ég hef notað það um þetta svokallaða rökstudda mat frá Bankasýslunni. Ég kalla það drasl. Ríkisendurskoðun segir að það innihaldi engan rökstuðning. Ég legg það að jöfnu. Ég get ekki séð að það séu einhver stóryrði hérna í gangi nema þau (Forseti hringir.) sem eiga tilefni til þess, samkvæmt gildismati hvers þingmanns, bara mjög sanngjarnt.