Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar árangur af efnahagslegum aðgerðum þá vil ég meina það, og það kemur kannski engum á óvart sem er hér í salnum, að árangurinn sé nokkuð ljós og það þurfi engar sérstakar rannsóknir á þeim. Við sjáum það einfaldlega á stöðunni í hagkerfinu og getum borið hana saman við önnur hagkerfi. Hún er nefnilega ansi góð. (Gripið fram í.) Við sjáum töluverð umsvif þrátt fyrir verðbólgu. Atvinnuleysið sem hv. þingmenn höfðu mestar áhyggjur af fyrir ári er vart til staðar lengur. Það er líka fjallað mjög ítarlega um félagslegar afleiðingar og einmitt þess vegna var Guðný Björk Eydal fengin í þessa nefnd til að fara sérstaklega í þau mál þar sem er verið að tala um samfélagsleg áhrif faraldurs á fullorðna og börn og einnig viðkvæma hópa sérstaklega. Það eru ábendingar hér um frekari rannsóknir sem auðvitað blasir við að ýmist stjórnvöld geta ráðist í eða fræðasamfélagið. Hvað varðar áhuga Alþingis þá finnst mér það vera Alþingis að taka þá ákvörðun, hvort fólk meti það þannig að það þurfi sérstaka rannsóknarnefnd í þessa vinnu. Ég myndi hins vegar segja að þessi skýrsla sé góð, hún er á sjötta hundrað blaðsíður og tekur á mjög víðtækum málefnum og ég myndi telja það mikilvægasta fyrir stjórnvöld núna að taka þessar ábendingar og vinna úr þeim. Ég nefndi það áðan að eitt af því sem mér finnst hvað mikilvægast í þessu er samþættingin á milli ríkis og sveitarfélaga sem ég tel að við getum gert betur í. En það eru líka fjöldamargar aðrar ábendingar sem við eigum að taka og vinna úr.