Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[17:37]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Að ganga í gegnum krísu er erfitt og miklu meira en erfitt. Það var mjög flókið og skrýtið og bara erfiður tími. En það er hætt við því að þegar við komum út úr slíku ástandi þá viljum við horfa fram á veginn og skilja erfiða ástandið eftir í fortíðinni. En sama hversu erfitt það kann að vera er ótrúlega mikilvægt að við gefum okkur tíma til að rýna í baksýnisspegilinn og læra af því sem gerðist, bæði sem einstaklingar og samfélag. Þessi skýrsla er ágætisbyrjun á þeirri vegferð. En það eru nokkrir hlutir sem ég legg mest upp úr þegar kemur að lærdómi frá Covid-tímabilinu. Í fyrsta lagi hvað varðar afmörkun skýrslunnar þá er um að ræða afar efnis- og umfangsmikla skýrslu sem hefur það hlutverk að greina áfallastjórnun stjórnvalda á Covid-19 tímabilinu. Það er fjallað um þanþol lagaheimilda um opinberar sóttvarnaráðstafanir og það kemur fram að í skýrslunni sé ekki tekin afstaða til undirbúnings einstakra ákvarðana eða stjórnvaldsfyrirmæla um opinberar sóttvarnaráðstafanir. Ekki sé heldur tekin afstaða til lagaheimilda einstakra reglugerða ráðherra né um það hvort tilteknar ráðstafanir hafi, á þeim tíma sem í þær var ráðist, verið í samræmi við meðalhóf og jafnræði o.s.frv.

Forseti. Ég viðurkenni að mér þykir þetta skjóta skökku við, ekki síst í ljósi þess að ég hefði haldið að einn helsti þátturinn sem við hefðum þurft að líta til og læra af væri hvort aðgerðir stjórnvalda samræmdust reglum um jafnræði og meðalhóf og hvort aðgerðir stjórnvalda hafi verið í samræmi við lögin sem tryggja eiga réttindi borgara við slíkar aðgerðir. Eins og er reifað í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2021, með leyfi forseta:

„Sú hætta virðist óneitanlega fyrir hendi að eftir langvarandi ástand, líkt og það sem skapaðist í heimsfaraldrinum, fari stjórnvöld í auknum mæli að líta á skerðingu grundvallarréttinda sem léttvæga eða jafnvel sjálfsagðan hlut með þeirri afleiðingu að réttaröryggi borgaranna skerðist til frambúðar. Andstætt ýmsum nágrannaríkjum okkar þá virðast enn sem komið er engar ráðagerðir uppi hér á landi um heildstæða úttekt, m.a. m.t.t. grunnreglna réttarríkisins, á þeim ráðstöfunum sem ráðist var í vegna heimsfaraldursins.“

Það að þessi skýrsla hafi ekki verið nýtt til að leggja betur mat á meðalhóf aðgerða er að mínu mati ámælisvert og gefur væntanlega ekki kost á öðru en að ráðast strax í þá vinnu. Það hlýtur að vera gríðarlega mikilvægt að ráðast strax í þá vinnu. Almenna umfjöllunin í skýrslunni um þanþol réttarheimilda er mikilvæg en hún er bara eitt púsl í þeirri mynd sem við þurfum að skoða.

Þá finnst mér líka tilefni til að tala aðeins um þær fullyrðingar sem finna má í sama kafla um að Alþingi hefði getað látið þessi mál til sín taka en að þingið hafi ekki valið að gera það. Þrjú þingmannamál um breytingar á sóttvarnafrumvörpum voru lögð fram en fengust ekki útrædd auk þess sem tvö stjórnarfrumvörp heilbrigðisráðherra voru samþykkt. Að halda því fram að Alþingi hafi haft mikil tækifæri til að grípa inn í aðgerðir stjórnvalda með lagasetningu er bara mjög hæpið. Upplýsingamiðlun til Alþingis var með allra minnsta móti. Þinghaldi voru strangar skorður settar vegna sóttvarnaráðstafana og sterkt meirihlutaræði hérna á þinginu þýddi að möguleikarnir til að veita aðhald voru oft af mjög skornum skammti. Það hefði verið mun eðlilegra fyrir heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina að hafa hreinlega ríkara samráð við þingið um lagaheimildir sínar í faraldrinum, bæði í þingsal og í nefndum þingsins. Ég vona svo sannarlega að það sé lærdómur sem ekki bara ég dreg af þessu heldur ríkisstjórnin sjálf og muni vinna öðruvísi og ríkisstjórnir framtíðarinnar muni vinna öðruvísi ef svona ástand kemur upp aftur, sem ég vona svo innilega að verði ekki.

Þá langar mig til að víkja aðeins að áhrifum Covid-19 faraldursins á líf fólks og heilsu. Það sem þessi skýrsla sýnir fram á er að andlegri líðan fólks hafi hrakað undanfarið og sérstaklega á tímum faraldursins. Andleg líðan sérstaklega ungs fólks annars vegar og stúlkna og kvenna hins vegar hefur versnað hvað mest og það er mikið áhyggjuefni. Það má heldur ekki gleyma því að það voru hefðbundnar kvennastéttir sem fóru verst út úr faraldrinum, þær sem stóðu vaktina í framlínustörfunum í faraldrinum. Þar má nefna hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, kennara, sem eru að miklu leyti konur, og öll umönnunarstörfin í samfélaginu. En svo eru hin minna sýnilegu störfin sem gleymast stundum eins og ræstingar, sem konur sinna oft í miklum mæli, og hvað þá öll húsverkin og barnauppeldið og þriðja vaktin sem er nánast aldrei talað um og aldrei metið til fjár. Það er ofboðslega mikilvægt að við höldum áfram að standa vörð um þessa hópa sem lentu í mestu álaginu og hafa frumkvæði að aðgerðum sem styðja við fólkið.

Þar sem okkur vantar, eins og skýrslan bendir á, er heildarmyndin af langtímaáhrifum Covid-19 á fólk. Það er vinna sem ég vona innilega að stjórnvöld haldi vel utan um og sú skýrsla, þegar hún kemur, verður algjörlega nauðsynleg fyrir ákvarðanatöku í framtíðinni. Það sem kann að hafa haft hvað mestar afleiðingar í faraldrinum eru langvarandi breytingar á samfélaginu vegna sóttvarnaráðstafana. Í rétt um tvö ár þurfti fólk að búa við áföll, ótta, streitu, óvissu vegna atvinnumissis á meðan faraldrinum stóð og vegna áframhaldandi afkomukvíða í kjölfarið. Nú þegar við erum loksins að komast úr ástandinu tekur við stríð, verðbólga ofan á allt og fjárhagsáhyggjur einstaklinga og fjölskyldna hafa ekki verið eins miklar síðan eftir hrunið. Andlegri líðan hefur hrakað mikið á sama tíma. Það má ekki gleyma því að flest okkar þurftum á einhverjum tímapunkti að sæta einangrun eða sóttkví og sum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og lengst af var sóttkví um ein vika og einangrun tíu dagar eða lengri. Fólk er eðlilega misvel búið undir þá einangrun og hún getur komið mjög misjafnlega við fólk. Þá varð fólk í einhverjum tilfellum fyrir tekjumissi vegna ákvarðana og jafnvel þótt stjórnvöld hafi reynt að koma til móts við þessa hópa með sérstakri lagasetningu og launagreiðslum í sóttkví og einangrun hefur þetta samt haft áhrif á lífsgæði þessa fólks.

Það sem mér finnst við sjá eftir þennan faraldur er aukin samfélagsleg sundrung sem leiðir af sér minni samkennd og samstöðu, grefur undan trausti og samfélagsþátttöku sem er grundvöllur heilbrigðs lýðræðis. Þetta eru allt þættir sem þarf að huga að og við þurfum að halda áfram að hlúa að nú þegar faraldurinn er að baki að mestu.

Forseti. Hvað kostar það okkur fyrir framtíðarheilbrigði þjóðarinnar að hafa ekki tekið nægilega vel utan um viðkvæmustu hópana á tímum heimsfaraldurs? Voru lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur nægilega háar til að tryggja raunverulegt öryggisnet fyrir fólk á þessum erfiðu tímum? Hver verður kostnaðurinn í framtíðinni af því að hafa ekki tryggt grunnframfærslu nemenda t.d. eða af því að hafa ekki tekið betur utan um einstæða foreldra, að hafa ekki tryggt efnahagslegt öryggi og sveigjanleika fólks á þessum óvissutímum? Hver verður kostnaðurinn af því að hafa ekki stóraukið framlög til geðheilbrigðismála? Munum við gera það núna í kjölfar þessarar skýrslu? Ef marka má fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og fjárlög þá er svarið nei. Hversu hár verður framtíðarreikningurinn vegna vangetu stjórnvalda til að fyrirbyggja uppsafnaðan vanda í heilbrigðiskerfinu? Nú er ég ekki bara að tala um kostnaðinn í krónum og aurum. Ég er að tala um mannlega kostnaðinn, kostnaðinn við það þegar fólk missir heilsuna, missir gleðina, missir tök á framtíðarsýninni, á voninni, á tilganginum.

Mig langar til að minna á varnaðarorð sem heyrðust oft í faraldrinum: Við getum búist við því að svipaður heilsubrestur muni eiga sér stað í kjölfar faraldursins og var eftir hrun. Það gæti tekið einhver ár fyrir hann að koma fram en við verðum að vera undirbúin. Þá gengur ekki að heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið okkar séu ýmist brotakennd eða við þolmörk eins og staðan er núna. Við verðum að fjármagna heilbrigðiskerfið í alvörunni. Við þurfum stórátak í geðheilbrigðismálum og stórátak í eflingu félagslegra tengsla. Ég get ekki lagt nægilega mikla áherslu á mikilvægi þess að snúa þessari hættulegu þróun við; að fleiri og fleiri upplifa í auknum mæli einangrun og einmanaleika. Þetta er þróun sem hófst löngu fyrir Covid en viðbrögð og aðgerðir og Covid-veikindi hafa aukið á vandann. Það er vanræksla á háu stigi að mæta þessu verkefni ekki af alvöru og með fjármagni því að við mætum því ekki af alvöru nema við setjum fjármagn í það. Afleiðingarnar fyrir heilsu okkar og framtíðarkynslóðir, fyrir samheldni og samstöðu samfélagsins eru miklar. Þetta lagar sig ekki sjálft. Von mín er að við munum ranka við okkur og sjá að við verðum að fara í raunverulegar aðgerðir og að aðgerðirnar verða endurspeglast í fjárlögum, þær verða að endurspeglast í fjármálaáætlun og sýna hver forgangsröðun okkar er.

Mig langar til að taka undir orð hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur hér áðan sem talaði um hversu mikil aukning hefur orðið á vanlíðan stúlkna í samfélaginu og ungra barna. Þetta hlýtur að öskra á okkur að forgangsröðun okkar sé röng, að það sé eitthvað að í samfélagi okkar. Við hljótum að þurfa að hlusta á þetta og bregðast við, því til hvers erum við annars hérna?

Stjórnvöld fóru í íþyngjandi aðgerðir í Covid og ég skil alveg að það var nauðsynlegt, ég skil að það var neyðarástand og það var þörf á því að grípa til aðgerða og þetta var gert á hlaupum, fólk var að bregðast við. En núna er tækifæri til þess að undirbúa okkur þannig að við þurfum ekki að bregðast við á þennan máta í framtíðinni heldur séum við með plan og við séum með lýðræðislegri leið til að nálgast neyðarástand og við undirbúum okkur fyrir það. Hluti af því er að taka alvarlega þann vanda sem hefur orðið í kjölfarið. Ég er ekki að segja að þessi vandi sé til staðar út af Covid, ég held að hann hafi þegar verið byrjaður að þróast, ég held að Covid hafi bara ýtt undir hann og aukið. Við verðum að gera eitthvað í því. Til hvers erum við annars hérna? Ég finn ekki að ríkisstjórnin sé að taka þetta alvarlega og mér þykir það miður. Ég vona að það breytist.