Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Hver er afleiðing þess þegar manneskja gengst aldrei við ábyrgð, ber aldrei ábyrgð á því sem hún gerir? Jú, afleiðingin er að traust til þessarar manneskju hverfur. Það má flækja umræðu um bankasölu ríkisstjórnarinnar en í grunninn snýst málið um ábyrgð og traust. Við vitum að ríkisstjórnin ætlar ekki að axla neina ábyrgð. Mig langar þess vegna til að segja nokkur orð um traust því að óháð flóttanum frá ábyrgð blasir við að allt traust er farið. Traustið hefur gufað upp og stærsta og alvarlegasta afleiðingin af því hvernig ríkisstjórnin sjálf teiknaði upp plan sitt um að selja Íslandsbanka er að fjármál íslenska ríkisins eru í uppnámi. Frammistaða ríkisstjórnarinnar hefur áhrif á fjármögnun heilbrigðiskerfisins á næsta ári, á uppbyggingu innviða, á niðurgreiðslu skulda og nóg er til af þeim eftir fimm ára setu þessarar ríkisstjórnar. Hvers vegna? Fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár gera ráð fyrir tekjum upp á 75 milljarða af áframhaldandi sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka — 75 milljarðar. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sýnir að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir þessum tekjum og þarf á þeim að halda. Nú talar forsætisráðherra eðlilega eins og framhaldið sé óljóst, skiljanlega því að traustið er farið. Það gerist þegar menn axla aldrei ábyrgð. Þá stendur eftir sú grafalvarlega afleiðing að almenningur á Íslandi situr uppi með það hvernig á að brúa þetta nýja gat upp á 75 milljarða ofan á 90 milljarða halla ríkisstjórnarinnar. Hvað ætlar forsætisráðherra þá að gera til að endurvinna traustið? Dugar það Vinstri grænum að færa ákvarðanir frá Bankasýslu til fjármálaráðherra? Treysta Vinstri græn Bjarna Benediktssyni til að fara með og bera ábyrgð á frekari sölu á banka? Um það snýst málið.