Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að halda ríkisstjórninni við efnið varðandi fyrirheit um stuðning við Seyðisfjörð, við uppbyggingu og endurbyggingu eftir skriðuföllin, að sjálfsögðu samhliða framkvæmdum við ofanflóðavarnir. Skömmu eftir skriðuföllin innti ég ráðherra eftir því hvort ríkisstjórnin myndi styðja Seyðfirðinga í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg yrði og fékk afdráttarlaus svör um að sú yrði raunin. En mér þykir vanta upp á efndirnar nú þegar nokkuð er liðið, þó ekki mjög langur tími, frá því að þessar náttúruhamfarir gengu yfir. Síðan hefur annað bæst við, þar með talið mikið óveður sem olli viðbótarskemmdum.

Þingmönnum barst nýverið erindi frá Tækniminjasafni Austurlands, mjög merku safni sem eyðilagðist að miklu leyti í skriðuföllunum. Óskað var eftir stuðningi og bent á að safnið ætti ekki rétt á stuðningi sem það gæti ella hugsanlega fengið þar sem endurbygging safnsins eða uppbygging á nýjum stað teldist ekki nýnæmi. Því var leitað ásjár þingsins varðandi stuðning við þær framkvæmdir sem fram undan eru, vonandi, en þar hefur verið unnið þrekvirki við að bjarga munum sem fóru í skriðuföllin, m.a. með mikilli hjálp sjálfboðaliða. Ég hef fengið að skoða þessa vinnu alla og hún er einstaklega tilkomumikil. Þar hefur tekist að bjarga mörgu en safnið þarf húsnæði og Seyðisfjörður þarf að endurheimta á einhvern hátt þá sögu sem glataðist í þessum hamförum. Ég hvet því þingmenn, sérstaklega hv. þingmenn í fjárlaganefnd, að gleyma ekki Seyðisfirði og gleyma ekki fyrirheitum stjórnvalda.