Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

sjúklingatrygging.

211. mál
[11:54]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig rétt athugað hjá hv. þingmanni sem stóð hér rétt í þessu að það sé á ábyrgð Alþingis að standa þannig að málum að hvergi sé grafið undan bótarétti almennings þegar svona mál eru til meðferðar hér í salnum. Þegar um er að ræða lyfjagjöf sem yfirvöld taka að sér að mæla með þá hlýtur það að vera útgangspunktur að almenningur sem þiggur lyf njóti vafans ef til einhvers konar heilsufarstjóns kemur. Inn í þetta spila auðvitað sjónarmið og almennar alþjóðlegar reglur um upplýst samþykki. Það verður að vera alveg ljóst að ef skortir eitthvað á um upplýsingar þá beri sá ábyrgð sem hvetur til lyfjagjafarinnar, í þessu tilviki íslenska ríkið. Ég vil svo sem ekki taka einhverja skýra afstöðu til þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað að öðru leyti en því að bara segja að allan vafa beri að túlka þeim í hag sem þiggur lyfið og hefur ekki fengið alveg fullnægjandi upplýsingar hugsanlega um lyfjagjöfina.

Ég vil gagnrýna það hér í þessum sal, fyrst ég er líka kominn hingað upp í ræðustólinn, að ég tel að upplýsingagjöf íslenskra stjórnvalda í öllu þessu kórónafári og gagnvart þessari lyfjagjöf, sem beindist þá að kórónaveirunni og hugsanlega hvað varðar apabólu, hafi verið ábótavant. Ég sé að nágrannaríki okkar hafa staðið betur að upplýsingagjöf, til að mynda með því að afhenda fólki miða þar sem fram kemur hverjar gætu verið hugsanlegar aukaverkanir o.s.frv. en fólki ekki smalað inn eins og gert var í fjöldabólusetningum hér á landi án þess að afhenda slíkar upplýsingar.