Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:10]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í upphafi þessa þings og er kannski ekki eins vel inni í þessum málum og margir aðrir hér í salnum en ég þykist skilja um hvað málið snýst. Það sem ég er hugsi yfir er ekki einungis þetta með sérstök undantekningartilvik þegar brýn þörf er á, eins og segir hér, með leyfi forseta, í 3. gr. frumvarpsins. Þar stendur einnig:

„…eftir atvikum leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og annarra aðila eftir því sem við á.“

Hér er greinilega um mjög matskennt ákvæði að ræða. Hæstv. ráðherra nefndi í framsögu sinni óafturkræft tjón á verðmætum. Ég skil það þannig að þá séum við að ræða um framleiðsluverðmæti fyrirtækjanna og ég ætla ekki að gera lítið úr þeim. En ég hef áhyggjur af því að með þessu sé hægt að víkja til hliðar vernd þeirra verðmæta sem við reynum að vernda með umhverfismati framkvæmda og áætlana. Ég velti fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra meti þetta, af því að hér vegast á hagsmunir og þeir eru báðir mjög mikilvægir. Þetta mat á óafturkræfu tjóni á verðmætum, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það fari hreinlega fram?