Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl. .

390. mál
[12:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð að viðurkenna að ég er enn mjög hugsi yfir þessum breytingum. Ég hef fullan skilning á því að stjórnvöld þurfi að bregðast við þegar ESA er e.t.v. að fara í mál við ríkið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd rýni þetta mál vel. Ég sé það hér, bara með því að glugga lauslega í greinargerðina, hvaða umsagnir hafa áður borist, bæði frá Landvernd og náttúruverndarfélaginu Laxinn lifir og Náttúruverndarsamtökum Íslands. Það er alltaf svolítið, hvað á að segja, kannski „varhugavert“ sé rétta lýsingarorðið, að laga lagaumhverfið að tiltekinni starfsemi. Við erum í rauninni að ræða um fiskeldi við strendur Íslands hafi ég skilið þetta mál rétt. Það er, eins og hv. þingmenn vita, bæði umdeilt byggðamál og viðkvæmt, m.a. vegna þess hvernig leyfisveitingin er. Ég velti fyrir mér í því samhengi hvort það sem hér eru kallaðir annmarkar og gefa tilefni til bráðabirgðaleyfis, í undantekningartilfellum vonandi, séu einmitt þau atriði sem heimamenn, t.d. stór hluti Seyðfirðinga, hafa verið að gera athugasemdir við vegna áforma þar. Það er hægt að nefna auðvitað fleiri firði og sjókvíaeldi við landið. Ég geld varhuga við því um leið og ég skil þörfina fyrir að bregðast við tilmælunum frá EFTA. Já, lengra kemst ég víst ekki, frú forseti.