Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:13]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég fékk eiginlega tár í augun, ég er svo hjartanlega sammála honum. Hann er einfaldlega að tala um frumvarpið sem ég er búin að mæla fyrir þrjú ár í röð og það fer einmitt að koma að því að ég mæli fyrir því aftur. Ég get ekki betur heyrt en að ég og hv. þingmaður séum algjörlega komin í sama lið hvað þetta varðar, þannig að þetta er bara tilhlökkunarefni.

Hins vegar, ef ég er ekki að misskilja hlutina, þá hefur líka mikið verið talað um þetta svokallaða starfsgetumat. Gott og vel, það er nú það sem sprengdi upp samningaviðræður Öryrkjabandalagsins á sínum tíma við ríkisvaldið þegar kom að því að taka burtu þessa krónu á móti krónu skerðingu og allt það. En staðreyndin er sú, og ég vona að hv. þingmaður skilji hvað ég er að segja vegna þess að ég skil mig mjög vel sjálf hvað þetta varðar, að það var ekkert fjármagn sem fylgdi því. Einstaklingur sem var kannski með 40–50% starfsgetu átti einfaldlega að finna sér vinnu, 40–50% vinnu, en það var ekkert á bak við, ekkert fjármagn sem fylgdi. Það átti bara að skerða hann niður, framfærsla hans átti að lækka sem því nam án þess að viðkomandi hefði neina tryggingu fyrir því að einhver vildi ráða hann í vinnu, fatlaður, öryrki, 40% starfshlutfall. Hver vill ráða mig í vinnu? Spurningin snerist um það og það var það sem vakti ugg hjá Öryrkjabandalaginu og málsvara þeirra og þeim sem þeir eru að tala fyrir.

Ég segi enn og aftur, hv. þingmaður: Að sjálfsögðu erum við í sama liði þegar kemur að því að leyfa fólkinu okkar eins og það mögulega treystir sér til og mögulega getur að bjarga sér sjálft. Og í því tilviki þegar ég var að tala um að leyfa fólki að fara út að vinna án þess að skerða það í X langan tíma, það er bara þannig að þessi tilraun að leyfa fólki að vinna í X langan tíma án þess að skerða það, (Forseti hringir.) gefa því tækifæri á því að annaðhvort fari það aftur inn á kerfið — 32% í Svíþjóð gerðu það bara alls ekki. (Forseti hringir.) Það var ávinningurinn. Fólk fór bara ekki aftur inn á örorkukerfið. Við vorum bara komin með það í „full swing“ inn í samfélagið.