Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

félagsleg aðstoð.

435. mál
[14:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni með þetta frumvarp sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir áðan um breytingu á lögum um félagslega aðstoð þar sem verið er að lengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris. Ég tel þetta þarft mál, m.a. vegna þess að samfélagið okkar hefur breyst og hefði ég raunar viljað sjá þessa breytingu gerða fyrr. Langvinnir sjúkdómar sem fólk lifir af og sem fólk lifir með, sem betur fer og stundum lengi, gera það að verkum að við þurfum að hafa sterkt og gott endurhæfingarkerfi vegna þess að við viljum að fólk, sér í lagi ungt fólk sem á alla ævina og starfsævina fyrir sér, fái endurhæfingu og geti þannig tekist á við sínar aðstæður og fái aðstoð til þess. Það er gott fyrir einstaklingana sem um ræðir og líka fyrir samfélagið í heild. Ég er því ekki sammála því sem hv. þm. Inga Sæland sagði hér áðan um að þetta frumvarp skipti engu máli fyrir kjör eða aðstæður öryrkja, ég held einmitt að það skipti máli. Vonandi verður það til þess að fleira fólk komist aftur út á vinnumarkaðinn þó svo að það sé kannski í skertu starfshlutfalli.

Ég held að einnig sé mikilvægt að leggja ekki bara áherslu á starfsendurhæfingu. Áherslan þarf að vera á fjölbreytta endurhæfingu. Þar held ég að við getum alveg gert betur og að það eigi að vera eitt af því sem hæstv. ráðherra tekur inn í sína vinnu, þ.e. að tryggja fjölbreytt endurhæfingarúrræði fyrir fólk. Ég tel mikilvægt að aukin menntunartækifæri séu þar undir vegna þess að með aukinni menntun eykst hreyfanleiki fólks á vinnumarkaði og fólk með skerta starfsgetu þarf oft þennan aukna hreyfanleika í ríkara mæli en þau sem eru heil heilsu og alveg frísk.

Mig langar líka að nefna, vegna þess að það liggur fyrir endurskoðun á almannatryggingakerfinu, að ég tel mikilvægt að fólk hafi svigrúm til þess að ná sér eftir sjúkdóma og áföll, jafnvel áður en það hefur endurhæfingu, því að það er hluti af batanum sem þarf að eiga sér stað til að fólk taki við og sé tilbúið í endurhæfinguna. Sem betur fer höfum við kerfi þar sem eru góðir sjúkrasjóðir en við þurfum að tryggja að ungt fólk sem ekki er komið út á vinnumarkaðinn hafi einhver afkomuúrræði meðan það er að fást við veikindi sín. Það er partur af þessu heildarlandslagi sem ég tel að gott velferðarsamfélag eigi að hafa upp á að bjóða.

Síðan er mikilvægt ef fólk fer ekki í upphafi einhverra hluta vegna í endurhæfingarúrræði, eða vegna þess að það er á endanum metið sem svo að örorka sé rétta leiðin til að tryggja framfærslu fólks sem getur ekki unnið fyrir sér, að þá sé það gripið af góðu öryggisneti sem er almannatryggingakerfið okkar. Þetta þarf allt að virka sem ein heild og fólk þarf að finna fyrir öryggi í þessu ferli. Mér finnst mikilvægt að stjórnvöld, samfélagið og atvinnulífið vinni að því að vinnumarkaðurinn taki á móti fólki sem er með skerta starfsgetu vegna þess að það eru ekki bara skerðingar í núverandi kerfi sem gera fólki erfitt fyrir að fara út á vinnumarkaðinn heldur líka fordómar fyrir ýmiss konar fötlunum. Þeir eru ekki bara hjá atvinnurekendum heldur þurfum við sem samfélag að vera tilbúin til þess að fjölbreytilegur hópur fólks starfi í alls konar störfum, hvort sem það er lögfræðingurinn okkar sem hefur einhvers konar sýnilega fötlun, kennarinn sem kennir börnunum okkar með notkun táknmáls en reiðir sig á táknmálstúlk eða manneskja á kassanum með sjónskerðingu. Fólk er alls konar og glímir við alls konar aðstæður. Vegna þess að við höfum í langan tíma verið að ræða um og finna leiðina til þess að breyta og bæta almannatryggingakerfið okkar þá þurfum við líka að horfa til þess að samfélagið er allt öðruvísi en þegar þessu kerfi var komið á. Líkt og ég sagði í upphafi ræðu minnar þá lifir fólk núna sem betur fer með alls konar skerðingar sem hreinlega dó áður fyrr. Almannatryggingakerfið þarf að taka mið af því en þarf auðvitað líka að vera þannig að fólk geti lifað mannsæmandi lífi þótt það sé annaðhvort í endurhæfingu eða á örorku.

Ég ætla þess vegna að fagna þessu frumvarpi. Ég tel að það verði til góðs að lögð sé aukin áhersla á endurhæfingu og ég ætla að taka undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem sagðist vonast til þess að hægt væri að klára þetta mál fyrir jól.

Ég er ekki í hv. velferðarnefnd en ég óska nefndinni svo sannarlega góðs gengis í sinni vinnu. Síðan vil ég hvetja ráðherrann og hans ráðuneyti til dáða í því vandasama verki sem er fram undan að gera breytingar á almannatryggingakerfinu, þ.e. þeim hluta sem lýtur sérstaklega að örorkulífeyriskerfinu, því að það er brýnt. Vinnan hefur staðið yfir í gríðarlega mörg ár. Ég vona að núna, vegna þess hversu lengi samtalið hefur staðið, verði hægt að nota það sem hefur komið út úr þeirri vinnu, henda því sem mesta ósættið hefur verið um, hætta að hugsa um það en vinna með það sem frekar hefur ríkt sátt um. Mér finnst það skipta máli og ég vil tilheyra samfélagi þar sem fólk með skerta starfsgetu getur lifað góðu lífi, hvort sem það er með þátttöku á vinnumarkaði eða vegna þess að velferðarkerfið okkar grípur það og sér því fyrir góðri og mannsæmandi framfærslu.