Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:01]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fyrir það sem hér er kynnt og framlengt með breytingum. Ég vil sömuleiðis óska hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra til hamingju með tvennt, einkum og sér í lagi, sem er annars vegar hækkun á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar, sem er meginforsenda þess að öll kvikmyndaver landsins, eða þau fáu sem við eigum, eru uppbókuð fram yfir mitt næsta ár og fleiri þar með í farvatninu til byggingar, og að hér situr Jodie Foster uppi í Gufunesi og er hér með risaseríu, 9 milljarða sjónvarpsseríu, hvort sem það er Netflix eða annað, og fjölmörg kvikmyndaverkefni eru hér í bígerð. Þetta er sömuleiðis tengt að því leyti að eftir að þessi lög um endurgreiðslur á hljóðritunum tóku gildi hefur fjölgað verulega þeim sem hingað koma til að hljóðrita, m.a. kvikmyndatónlist en einnig bara tónlist af öðrum toga. Og vegna þessara laga hefur t.d. verið komið fyrir einu fullkomnasta hljóðveri landsins í Fljótunum, við Haganesvík, sem er eitt það hljómprúðasta sem við höfðum eignast, byggt á gamalli hliðrænni tækni; analog 24 rása upptökumöguleikar með öllum besta búnaði sem völ er á, en jafnframt með stafrænum hætti tölvutækninnar. Þar hefur gengið svo vel að laða verkefni til landsins að þetta hljóðver hefur verið bókað allan ársins hring frá því að það var opnað fyrir tæpum tveimur árum. Annað slíkt hljóðver er nú þegar á teikniborðinu og verður opnað að óbreyttu á næsta ári, mun stærra og veglegra þar sem listamennirnir geta búið á meðan þeir starfa. Þar eru einnig áform um að efna til kennslu í hljóðtæknifræðum og tónlist. Þannig að þetta er auðvitað mikill búhnykkur fyrir okkur hér á Íslandi og ekki síst þá nyrðra. Sömuleiðis er vert geta afar áhugaverðs hljóðvers sem er á Stöðvarfirði þannig að nú er Norðausturkjördæmið sumsé með tvö vel virk hljóðver og það þriðja á leiðinni.

En þessi breyting sem hér hefur verið kynnt í dag af hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra er öll til batnaðar og við sem höfum starfað í þessari grein um árabil fögnum því mjög að eiga menningar- og viðskiptaráðherra vegna þess að stundum hefur þetta verið afar aðskilið og lítill skilningur hjá þeim sem starfa í heimi viðskiptanna á því sem tilheyrir heimi menningarinnar og öfugt. Það að kenna tónlist og láta hana þróast út í starfsemi og arðbæran iðnað með fjölda starfa, sem síðan verður arðbær og sjálfbær er markmið sem hér er stefnt að. Það markmið er mjög speglað í þeirri nýju tónlistarmiðstöð sem hér hefur verið kynnt til sögunnar í frumvarpinu sem tekur gildi um áramót, ef ég þekki rétt, þar sem við erum að fara þvert á allar stefnur í tónlist, erum að fanga þær, þ.e. að taka utan um þær með nýjum lögum þar sem lögmál menningarinnar, listarinnar og viðskiptanna fléttast saman með þeim hætti sem mjög eftirsóknarvert verður að teljast.

Ég er ekki alveg búinn að kynna mér þær nægilega vel. En mig langar að spyrja hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hvort við séum ekki búin að afnema þá þröskulda sem voru í gömlu lögunum sem takmörkuðu okkur við Evrópusambandslönd, þ.e. stærstu markaðir tónlistar í heiminum eru auðvitað í Bandaríkjunum og vaxandi markaðir í Asíu, en þegar ég sat í þeirri nefnd sem sá um að endurgreiða þá gátum við einungis tekið við umsóknum frá Evrópulöndum. Það er það sem mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um, um leið og ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta frábæra mál í heild sinni og tel það til mikilla framfara fyrir okkur sem þjóð menningar og alþjóðlegra viðskipta. Gleymum því ekki að það eru þrátt fyrir allt andans jöfrarnir sem hér hafa borið hróður Íslands sem víðast, allt frá dögum Snorra, Laxness að Björkunum blíðu og Sigurrósunum öllum.