Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

442. mál
[15:22]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir andsvarið og tek heils hugar undir allt sem kom fram í ræðu hennar áðan. Það er alveg ótrúlega magnað að fylgjast með því. Ég man eftir því þegar Mugison var að stíga sín fyrstu skref í Súðavík. Þá fylgdist ég með því bara sem krakki hversu öflugt tónlistarlífið getur verið. Og hann var bara með stúdíóið heima hjá sér að framleiða magnaða tónlist. Við erum að sjá tónlistarmenn og konur koma fram núna með framúrskarandi texta og lög sem við erum búin að sjá þróast í gegnum árin. Í gegnum tugi ára er þetta alltaf að verða betra og betra. Það eru einmitt þeir sem lögðu grunninn að þessu sem eru búnir að vera að standa vaktina. Ég er svo viss um að við getum byggt enn þá sterkari grunn undir tónlistina, ofan á það sem hefur verið gert nú þegar. Ég er bara ótrúlega spennt að sjá hvað þessi breyting getur haft í för með sér því að ég held bara að heimurinn sé okkur ostra ef ég má segja það þannig — var ekki dagur íslenskrar tungu í gær? Við þurfum einhvern veginn að skoða þetta alveg heildstætt út frá því hvað við getum gert og ég er ótrúlega vongóð um að þetta sé hárrétta skrefið.