Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

útboð á rekstri heilsugæslustöðvar á Akureyri.

42. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir andsvarið og innblásna ræðu. Ég ætla að fá að svara því hvort það sé mýta að það bæti þjónustuna að fá einkarekna þjónustu inn í heilbrigðiskerfið. Það sýnir sig og sannar í könnun Maskínu, ekki bara frá því í fyrra heldur líka frá 2019, að þjónustan hefur stórlega aukist. Það er staðreynd en ekki mýta. Talandi um epli og appelsínur þá er enginn að tala um einkavæðingu, við erum tala um einkarekstur sem er ekki það sama. Við förum alltaf út í þetta bull en látum það liggja á milli hluta.

Fjármögnunarlíkanið er ekki fullkomið og einkareknu heilsugæslurnar hafa verið að benda á það þegar þær tala um fjármögnun hjá sér, að líkanið sé ekki fullkomið og það þurfi skref í rétta átt, eins og ég sagði í minni ræðu, til að bæta hluti þar.

Varðandi það að vilja fá fjölbreytta þjónustu: Já, nákvæmlega. Styðjum þá þetta mál og fáum fjölbreyttari þjónustu. Ef við höfum ólíka rekstraraðila sem standa að baki þjónustunni þá leiðir það væntanlega til þess að þjónustan verði fjölbreyttari.

Varðandi mönnunarvandann og hvar ég ætli finna allt þetta fólk til að vinna á þessari einkareknu heilsugæslu þá þurfum við að bæta starfsaðstæður, hvort sem það er í einkarekstri eða hjá hinu opinbera, og fjölbreytt starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk úti á landi er lykilþáttur í því. Þetta er ein leið til að bæta starfsaðstæður og fá þar af leiðandi fólk út á land til að vinna þessi störf.