Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:15]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Lindarhvoll er fyrirbæri sem er í raun hluti af hruninu. Þar voru settar inn eignir sem ríkið fékk í gegnum svokölluð stöðugleikaframlög. Við þekkjum söguna af Íslandsbanka sem við erum að gera ágreining um hér á þingi. Því miður virðist sem leynd hvíli yfir mörgum þeirra mála sem tilheyrðu hruninu, m.a. hvernig Lindarhvoll ráðstafaði eignum og hverjir keyptu. Við höfum dæmi um að verið var að selja íbúðir í pakkavís í gegnum Íbúðalánasjóð en við fáum ekki upplýsingar um það hverjir keyptu og á hvaða verði það var selt. Við fáum heldur ekki upplýsingar um það hverjir komu hér og björguðu Íslandi í gegnum svokallaða fjárfestingarleið, fengu afslátt af fjármunum sem þeir komu með til landsins til að fara í samkeppni við fólkið sem hér bjó við íslenska krónu. Á meðan svo er þá grær ekki um heilt í íslensku samfélagi.