153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

umhverfisáhrif vegna förgunar koltvísýrings.

[15:39]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Bara til að segja frá því þá hefur Carbfix verið í gangi mjög lengi. Ég held að það hafi verið 2007 sem farið var í þetta. Ástæðan fyrir því að þetta hefur verið í gangi svona lengi er sú að gríðarlega margar rannsóknir hafa farið fram af þeim ástæðum sem hv. þingmaður vísar til. Þetta er náttúrlega mjög framúrstefnuleg hugmynd sem gengur í raun út á það að taka CO2 og gera úr því steina. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvaða möguleika það hefur þegar það er hægt.

Hv. þingmaður spyr um einstaka þætti þessa máls. Stutta svarið er: Ég hef ekki heyrt nein dæmi um áhyggjur af þeim þáttum sem hv. þingmaður vísar til, ekki nema bara frá hv. þingmanni um daginn. Það voru fréttir fyrir mér. Ég hef ekki ekki heyrt af því. Þvert á móti hefur þetta vakið athygli langt út fyrir landsteinana og fengið styrki vegna þess að menn sjá mikla möguleika þegar kemur að baráttunni í loftslagsmálum. Þarna erum við að taka það sem menn eru að berjast gegn og breyta því yfir í steina. Hins vegar á eftir að ganga frá mörgum lausum endum varðandi reglugerðarumhverfið og varðandi bókhaldið okkar og ýmislegt annað ef til þess kæmi að menn væru að flytja inn CO2 frá öðrum löndum. En svo höfum við bara af ýmsu að taka hér hjá okkur sem er náttúrlega hugmyndin að nýta sér. Þessi tækni er nokkuð sem menn eru að skoða með Carbfix en það eru líka aðrar hugmyndir sem eru komnar langt sem ég get vísað í hér á eftir.