Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

almenn hegningarlög.

33. mál
[17:12]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að svara betur fyrri spurningu hv. þingmanns, þar sem engin spurning kom fram í síðara andsvari, varðandi það hvort ég telji ástæðu til að afnema allt sem er ekki besta lausnin. Ég myndi segja: Já, ég vil afnema öll lagaákvæði sem ljóst er að valda meiri skaða en gagni. Nú veit ég ekki nákvæmlega til hvaða vinnu hv. þingmaður var að vísa í máli sínu rétt áðan því að farið hefur verið í ýmsar skýrslugerðir og ýmsar athuganir og skoðanir á þessum ákvæðum til að reyna að finna lausn á þeim vandamálum sem við viljum leysa í dag. Sett var á fót nefnd sem komst að þeirri niðurstöðu að núgildandi lagaákvæði væri gagnslaust. Annaðhvort þyrfti að afnema það, breyta orðalaginu, beita því eins og það er eða fara í breytingu sem hefði í för með sér gríðarlegan kostnað, bæði peningalegan og samfélagslegan, þar sem það er alveg ljóst að þetta ákvæði, eins og það er orðað í lögum í dag, nær yfir hluti sem ég held að ekki nokkur manneskja telji ástæðu til að refsa fyrir. Ég vil afnema ákvæði sem að mínu mati valda frekar skaða en að þau geri gagn. Önnur hugmynd sem kom upp hjá fyrrum ráðherra, Ögmundi Jónassyni, tengdist tæknilegum leiðum til að takmarka dreifingu kláms á internetinu. Þær hugmyndir sem þar voru uppi litu aldrei dagsins ljós og það er engin tilviljun vegna þess að eina tæknilega leiðin til að gera það sem þar var verið að velta fyrir sér er að setja á eftirlit með hegðun fólks á internetinu sem einræðisríki á borð við Kína og Norður-Kóreu gætu verið stolt af.