Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að stundum er auðvelt að geta gert hlutina úr sæti sínu og sérstaklega þegar þingsalurinn er fullur, það myndi liðka fyrir þingstörfunum. Eins og ég sagði áðan hefur hv. þingmanni verið umhugað um að liðka fyrir þingstörfum og mér finnst það ánægjuleg nálgun hjá þingmanninum að leggja áherslu á það með sínum háttvísa hætti, eins og honum einum er lagið. Það er ýmislegt sem mætti kannski betur fara í þingstörfunum almennt. En svo finnst mér líka, ef ég má segja það, frú forseti, að það mætti kannski reyna að gera þingfundina aðeins skemmtilegri, ef ég má orða það þannig. Ég hef verið talsmaður þess að leyfa kurteisisleg frammíköll í ræðum en þingforsetar eru fljótir að grípa í bjölluna ef kallað er fram í (Gripið fram í: Ég er alveg sammála þessu.) — akkúrat þetta er einmitt gott frammíkall — en það gæti gefið þessum ræðum hér í þingsal ákveðið gildi. Við þekkjum það t.d. frá Bretlandi að það er stundum unun að horfa á þingfundi í breska þinginu. Það er svo mikið fjör í þinginu að fólk situr bara spennt og horfir á og þar eru mörg frammíköllin algjör gullkorn. En þetta er kannski útúrdúr en alla vega þá er ég sammála hv. þingmanni um það að það eru ýmis praktískt atriði sem mætti taka til skoðunar. Hv. þingmaður nefndi t.d. hljóðnemana og ég tek undir það. Það er hægt að gera hlutina einfaldari en jafnvel skilvirkari hvað þetta varðar.