Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Fíkn, fíknisjúkdómar, drykkjusýki. Hver þekkir ekki þessi hugtök? Sérstaklega þeir einstaklingar sem glíma við þennan vágest, sem eru veikir, sem eru alkóhólistar og fíklar. Og hvers lags kerfi skyldi nú mæta þeim? Hvernig er tekið utan um þennan þjóðfélagshóp? Ég hef núna undanfarnar vikur fengið alveg í beinni útsendingu að fylgjast með þeirri þrautagöngu sem fárveikt fólk gengur hér og alla þá veggi sem þau mæta og rekast á í kerfinu, frábæra, frábæra heilbrigðiskerfinu. Þetta var reyndar háð. Það liggur ekkert annað fyrir þessum einstaklingum en að detta bara í það, en að gefast bara upp, vegna þess að þeir sem segjast eða þykjast vilja aðstoða þá gera það alls ekki, engan veginn. Og bara það að núna í síðustu viku hafi verið mælt hér fyrir frumvarpi þar sem verið var að fara þess á leit að við samþykktum lengingu á endurhæfingarlífeyri úr þremur árum í fimm — eins og það sé ekki fullreynt eftir þrjú ár hvort þú sért í raun og veru orðinn tilbúinn til að stíga inn í vinnuna — þá er svo einkennilegt sem það er að fíklarnir, drykkjusjúklingarnir, eiga að fara í sjúkraþjálfun, þeir eiga að leita sér sálfræðiaðstoðar, þeir eiga að fara í meðferð, þeir eiga að gera þetta og þeir eiga að gera hitt. Það kostar allt peninga, virðulegi forseti, en einhvern veginn eiga þeir að tína þá af trjánum vegna þess að alls staðar, hvort sem það er hjá Tryggingastofnun, sem sparaði sér rúma 4 milljarða á síðasta ári í nýgengi örorku, eða hjá félagsþjónustunni sem segir: Þú verður að reyna fyrst að klára réttindi þín hjá Sjúkratryggingum. Já, en til þess þarftu að fá vottorð. Já, ég gef þér ekki vottorð, þú varst í meðferð, það er ekki tekið gilt. Það eru fordómar og aftur fordómar (Forseti hringir.) sem eru að drekkja samfélaginu hérna gagnvart fíkn- og fíknisjúkdómum. (Forseti hringir.) Og það er kominn tími til þess að við förum að taka utan um þetta fólk og þann mannauð sem það hefur að geyma og hjálpa þeim út í lífið (Forseti hringir.) á ný, í stað þess að jarða þau hvert á fætur öðru á biðlista eftir hjálp. (Forseti hringir.) Ég hef skömm á þessu samfélagi.