Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum að við lifum á nokkuð flóknum og örlagaríkum tímum. Við lifum í veruleika þar sem sumar þjóðir eru vellauðugar á meðan aðrar búa við sára fátækt, í veruleika þar sem sumar þjóðir búa við frið á meðan það geisar stríð hjá öðrum, en þó í veruleika þar sem öllum þjóðum stendur gríðarleg ógn af loftslagsbreytingum, vissulega framtíðarógn fyrir margar en blákaldur veruleiki fyrir aðrar. Allir þessir þættir, stundum samverkandi, hafa gert það að verkum að mannkynið stendur nú andspænis því í fyrsta skipti í 20 ár að sárafátækt jarðarbúa eykst. Í augnablikinu erum við Íslendingar meðal þeirra gæfuríku, jafnvel heppnu. Við erum velmegandi og auðug af náttúruauðlindum, hér ríkir friður og enn hafa loftslagsbreytingar ekki kallað yfir okkur hörmungar þó við höfum vissulega stundum fengið viðvaranir í formi skrýtinna veðrabrigða eða óhuggulegra aurskriða. Við áttum okkur vonandi öll á því að þessar áskoranir eru sameiginlegt verkefni allra þjóða, alls mannkyns, og þess vegna er eðlilegt að við Íslendingar sýnum metnað í loftslagsmálum, leggjum fé til þróunarsamvinnu og veitum úkraínsku þjóðinni ríkulegan stuðning á erfiðum tímum.

Forseti. Erindi mitt hingað í pontu er að vekja athygli á þeirri staðreynd að hluti þeirra fjármuna sem Íslendingar veita vegna stríðsins í Úkraínu er tekinn af fé sem veitt er í þróunarsamvinnu. Ég vona að allir þingmenn hér inni átti sig á þessu og beiti sér fyrir því, við afgreiðslu fjáraukalaga yfirstandandi árs og fjárlaga næsta árs, að tryggja að það verði ekki niðurstaðan að við skerum niður fé til þróunarsamvinnu, sem við erum eftirbátar nágrannaþjóðanna með, til að veita sjálfsagðan stuðning við úkraínsku þjóðina. (Forseti hringir.) Það væri mjög mikil skömm og skammsýni af íslenska þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )