Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2022.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um tilhneigingu þessarar ríkisstjórnar til að pakka málum inn í umbúðir til að fela innihald þeirra. Því stærri sem málin eru þeim mun meiri umbúðir og límband er notað. Hæstv. dómsmálaráðherra og raunar líka hæstv. fjármálaráðherra hafa viðurkennt að málefni hælisleitenda séu orðin stjórnlaus á Íslandi. Á síðasta ársfjórðungi fjölgaði Íslendingum á Íslandi um u.þ.b. 300 en erlendum ríkisborgurum um u.þ.b. 3.500, tólffalt fleiri útlendingar en Íslendingar á þessu þriggja mánaða tímabili. En hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda við þessu ástandi sem hlýtur að kalla á að við endurmetum hvort við séum að hjálpa sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð eins og við getum best gert og hvort okkur takist að aðlaga nýja landsmenn að íslensku samfélagi? Viðbrögðin virðast vera þau að endurskilgreina vandann, pakka honum inn í nýjar umbúðir.

Í Fréttablaðinu hefur komið fram að hæstv. forsætisráðherra hyggist endurskilgreina vandann með því að grauta saman dvalarleyfum og vinnumarkaðsmálum, endurskilgreina, að því er virðist, hælisleitendur sem ódýrt vinnuafl. Þegar Ísland gekk í EES fór fram mikil umræða, eins og í öðrum löndum, um flæði vinnuafls milli landa og það var rökstutt með því að mynda ætti eitt efnahagslegt svæði þar sem giltu svipaðar reglur varðandi starfskjör, starfsaðstæður, velferðarkerfi og slíkt. En hér er verið að leggja til, að því er virðist, leið sem mun ekki leysa vandann, mun ekki gera okkur betur kleift að aðstoða (Forseti hringir.) fólk í neyð heldur mun auka vandann enn til muna og þar með bæta það met sem þessi ríkisstjórn hefur sett í málaflokknum til mikilla muna.