Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

mæting forsætisráðherra á fund fjárlaganefndar.

[15:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í Bandaríkjunum er dagur múrmeldýrsins einu sinni á ári en hér er hann árið um kring. Hversu oft eigum við að þurfa að vekja máls á því að ráðherrar neiti að sýna Alþingi samstarfsvilja? Hversu oft eigum við að þurfa að kveðja okkur hljóðs vegna þess að ráðherrar neita að mæta annaðhvort í þingsal eða fyrir þingnefndir til að ræða atriði sem falla undir þeirra málefnasvið eða atriði sem þeim finnst ekkert mál að ræða úti í bæ? Forsætisráðherra stýrir ráðherranefnd um efnahagsmál og því er fullkomlega eðlilegt að sá ráðherra mæti á fund fjárlaganefndar þegar uppi eru verulegar efasemdir um það að jafnvægi sé á ríkisfjármálum, að efnahagsástandið leiði þau fjárlög sem lagt er upp með. Ráðherra segir bara nei. Alveg eins og ráðherra menningar- og viðskiptamála sagði bara nei þegar þingið vildi gjarnan fá hana hingað í sal til að ræða bankasöluskýrsluna, sömu skýrslu og ráðherra talaði um sólarhringum saman í öllum fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Þessir ráðherrar sýna Alþingi og almenningi lítilsvirðingu. Ætlar forseti að leyfa því að líðast?