Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mikil umræða hefur verið um lestrarmál eftir þingsályktunartillögu Flokks fólksins og er það vel. Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli mennta- og barnamálaráðherra að gera breytingar á aðalnámskrá:

a. Að leggja áherslu á bókstafa-hljóðaaðferð við lestrarkennslu.

b. Að innleiða í stað leshraðamælinga stöðumatspróf með bókstafa-hljóðaaðferð, lesskilningspróf og mat á skriflegum texta.

c. Að leggja áherslu á að hver nemandi fái áskoranir miðað við færni.

Hrikaleg staða er í lestrarkunnáttu ungmenna á Íslandi. Staðan í lestrarkunnáttu á Íslandi er að 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi. Þriðjungur drengja, eða 34%, og 19% stúlkna lesa sér ekki til gagns eftir tíu ár í grunnskóla. Í lesskilningi skora 15 ára drengir lægra en börn norskra og danskra innflytjenda sem skora hærra. Það sama á við um bæði kyn á Suðurnesjum, Vesturlandi og Norðurlandi eystra. Skýrsla Reykjavíkurborgar sýnir að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi í lestrarkunnáttu, kunna sem sagt ekki íslensku. Skýrsla ASÍ sýnir að 10,8% 19 ára ungmenna, 500 einstaklingar, eru hvorki í námi né starfi. Kynjahlutfall í háskólum á Íslandi er 70/30, stúlkum í vil.

Þessi grafalvarlega staða í lestrarkunnáttu kallar á tafarlausar aðgerðir Alþingis. Hver ber ábyrgð á stöðu mála í þingræðisríki? Bretar hafa lögfest bókstafa-hljóðaðferðina í lestrarkennslu. Frakkar hafa einnig gert það. Frakkar leituðu til fremsta vísindamanns síns, prófessors Stanislas Dehaene, ráðgjafa Frakka í menntamálum. Prófessor Dehaene hefur sýnt fram á með rannsóknum sínum í taugavísindum, „brain skill“ að við verðum að nota bókstafa-hljóðaðferðina við lestrarkennslu, „phonics“, það er með henni sem við brjótum lestrarkóðann. Það er með henni sem við lærum að lesa. Rannsóknir prófessoranna Kate Nation og Maggie Snowling (Forseti hringir.) við Oxford-háskóla sýna það sama sem og rannsóknir Heikki Lyytinen sem kom hingað til lands nú á dögunum. (Forseti hringir.) Bókstafa-hljóðaðferðin er vísindi byggð á fræðigreinum sem birst hafa í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. (Forseti hringir.) Það er ekki annað hægt en að hvetja alla til að lesa þessar greinar. Þetta er málefni sem varðar okkur öll.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að sá tími sem þingmenn hafa til umráða í störfum þingsins er aðeins tvær mínútur, ekki meira.)