Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Um nýliðna helgi fór ársfundur NATO-þingsins fram í Madríd, Spáni. 269 þingmenn aðildarríkjanna 30 ásamt 100 þingmönnum samstarfsríkja bandalagsins eiga sæti í þinginu. Íbúafjöldi ríkjanna 30 sem tilheyra Atlantshafsbandalaginu í dag er um milljarður. Umræðan snerist vitanlega að stærstum hluta um grimmilegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu. Stuðningur meðal þingmanna NATO-þingsins við Úkraínu er einarður og samstaðan sjálfsagt ekki verið meiri í þinginu um áratugaskeið. Umræðan um inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í Atlantshafsbandalagið var vitanlega einnig mikið rædd. Á þessum tímapunkti hafa 28 af 30 ríkjum Atlantshafsbandalagsins samþykkt inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í bandalagið. Það er reiknað með að ungverska þingið samþykki inngöngu þeirra 7. desember og þá á tyrkneska þingið bara eftir að klára ferlið hjá sér. Vonum að það klárist sem allra fyrst.

Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga það sem Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, benti á í ræðu sinni á ársfundinum í Madríd, að allar þjóðirnar 30 samþykktu á leiðtogafundi bandalagsríkjanna í lok júní að hefja aðildarviðræður við Svía og Finna um inngöngu í bandalagið, þar á meðal Tyrkir. Ég held að það sé öllum orðið ljóst innan NATO hversu mikilvæg viðbót þessar norrænu vinaþjóðir okkar eru við bandalagið. Þær munu sérstaklega styrkja bandalagið í Eystrasaltinu, Norður-Atlantshafi, norðurslóðum og auðvitað í sameiginlegum vörnum alls bandalagsins.

Norðurlöndin eru nánustu samstarfsríki Íslands. Saman fylkja þau sér um norræn gildi lýðræðis og frelsis sem jafnframt eru grunngildi Atlantshafsbandalagsins. Það ætti öllum að vera ljóst að staðan í öryggis- og varnarmálum í okkar heimshluta gjörbreyttist eftir innrás Rússa í Úkraínu þann 24. febrúar. Heimsmyndinni og öryggismálum þjóðarinnar er breytt til lengri tíma.

Forseti. Það er mikilvægt að unnið sé af festu við að tryggja stöðugleika og frið. Það er stóra verkefnið.