Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirlitið. Það kom fram við meðferð málsins í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við hv. þingmaður sitjum bæði að þessum reglum væri fyrst og fremst ætlað að auka skilvirkni í landamæravörslu. Í heimsókn okkar á Keflavíkurflugvöll þar sem var verið að kynna fyrir okkur þær breytingar sem þarf að gera á húsnæði þar og annað til að þetta nýja kerfi megi verða að veruleika þá varð mér alveg ljóst að breytingarnar snúast ekki um skilvirkni heldur snúast þær um að herða landamæragæslu. Ákveðnar tæknilegar breytingar séu síðan gerðar til þess að auka skilvirkni á móti þeirri skertu skilvirkni sem verður af þeim breytingum. Það sem er í rauninni verið að gera hér og ég er ekki viss um að fólk átti sig á er að Evrópa og Schengen-aðildarríkin eru að taka upp sambærilegt kerfi og í Bandaríkjunum þar sem fólki sem jafnvel hefur áritunarfrelsi, þ.e. það á í rauninni rétt á að koma til landsins án þess að sækja sérstaklega um vegabréfsáritun, er gert að sækja um sérstaka heimild. Það má segja að verið sé að mörgu leyti að afnema áritunarfrelsi þar sem fólk þarf samt að fara í gegnum þetta kerfi.

Spurningin sem mig langar til að beina til hv. þingmanns varðar afnám andmælaréttar. Einstaklingur, sem hefur í rauninni heimild til að koma inn á svæðið án sérstakrar vegabréfsáritunar, sækir samt sem áður um heimild og hann fær síðan bara já eða nei innan fjögurra sólarhringa án þess að fá nokkurt tækifæri til að andmæla hugsanlegri synjun. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki einhverja mögulega útfærslu á þessu þannig að hægt sé að gæta að andmælarétti fólks, t.d. með því að gefa …