Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2022.

almannatryggingar.

66. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir. Auk mín eru flutningsmenn frumvarpsins hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórhallsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, eða þingflokkur Flokks fólksins.

„1. gr.: 2. mgr. 39. gr. laganna. 2. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

2. gr.: 2. gr. og 3. mgr. 40. gr. laganna falli brott.

3. gr.: Í stað orðanna „umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans“ í 1. málsl. 41. gr. laganna kemur: umsækjanda eða greiðsluþega.

4. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var lagt fram á 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi, 69. mál, og er nú lagt fram óbreytt.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tilteknum ákvæðum um upplýsingaskyldu í lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, nánar tiltekið ákvæðum sem heimila Tryggingastofnun ríkisins að afla upplýsinga um tekjur maka umsækjanda, eða greiðsluþega, samkvæmt lögum að fengnu skriflegu samþykki beggja og ákvæði er að skylda maka til að taka þátt í meðferð málsins. Þá verði umsækjandi eða greiðsluþegi ekki látinn bera hallann vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til maka hans.

Það er mat flutningsmanna að gildandi ákvæði laga um upplýsingaskyldu gangi of langt í skerðingu á friðhelgi einkalífs umsækjenda og greiðsluþega og rétti til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika, samanber ákvæði 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þá er sú meginregla ákveðin í a-lið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að virðing skuli borin fyrir meðfæddri göfgi og sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði þeirra. Er það mat flutningsmanna að ákvæði gildandi laga um almannatryggingar séu íþyngjandi og leggi of ríkar kvaðir á einstakling sem nýtur réttinda samkvæmt samningnum að afla upplýsinga hjá maka sínum og íþyngi einstaklingi sem bera þarf hallann af vanrækslu maka á því að sinna upplýsingaskyldu sinni. Lögin heimila þannig frestun á ákvörðun og greiðslu bóta vegna atriða sem ekki verða rakin til umsækjanda eða greiðsluþega sjálfs, sem er auðvitað grafalvarlegt mál.

Með vísan til umsagna sem velferðarnefnd bárust við meðferð málsins í fyrra, fyrri þingum, skal þess getið að á grundvelli 43. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, getur Tryggingastofnun aflað upplýsinga sem nauðsynlegt er til að unnt sé að framfylgja lögunum frá þeim aðila sem getið er um í ákvæðinu án aðkomu hans, sem sagt: Þetta eru óþörf lög og íþyngjandi lög sem engin þörf er á.

Það er mat flutningsmanna frumvarpsins að núgildandi ákvæði laganna um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir gangi of langt í skerðingu á friðhelgi einkalífs umsækjenda og greiðsluþega og rétti til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli og atvinnuleysis. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og virðing skuli borin fyrir meðfæddri göfgi og sjálfstæði, þar með talið frelsi til eigin ákvarðana og sjálfstæði þeirra. Þetta er mjög mikilvægt. Er það mat flutningsmanna að ákvæði núgildandi laga um íþyngjandi lög — þetta eru íþyngjandi lög sem okkur ber að taka til meðferðar hjá Alþingi og hreinlega eyða. Þegar þessi lög voru upphaflega sett 2014 var eiginlega verið að brjóta mannréttindi á örorkuþegum sem voru að sækja um örorkubætur. Einn flokkur baðst afsökunar á því að hafa samþykkt þessi lög sem voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Það voru Píratar. Lögin fela í sér að ef maki þess sem sækir um örorkulífeyri upplýsir ekki allt um sín mál, ef hann neitar á einhvern hátt að gefa upplýsingar um einkamál, er hægt að svipta örorkulífeyrisþegann, sem sækir um, réttindum sínum til að fá örorku metna. Það er hægt að svipta maka bótum ef maki hans neitar að gefa upplýsingar.

Það er með ólíkindum að svona lög hafi yfir höfuð verið samþykkt á Alþingi á sínum tíma, alveg stórfurðulegt. Hitt sem er enn furðulegra er að þessi lagaákvæði skuli enn þá vera í gildi því að þau, og ég er alveg sannfærður um það, brjóta ekki bara á mannréttindum viðkomandi heldur eru þau líka brot á persónuverndarlögum sem er búið að samþykkja og geta aldrei staðist þá skoðun.

Ef við horfum á hvernig þessi lög voru sett á sínum tíma þá er í 30. gr. þeirra sagt að ákvæði 1. mgr. um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega eigi einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við getur átt. Þarna er í sjálfu sér eiginlega farið aftur í tímann og verið að tekjutengja maka við örorkulífeyrisþega, sem var í raun búið að afnema og var ljótur blettur á okkar kerfi á sínum tíma. Þetta gerði það að verkum að ef annar aðilinn var vinnandi og hinn á örorku var sá síðarnefndi kominn á framfærslu viðkomandi. Því hærri tekjur sem vinnandi makinn hafði því minni tekjur fékk örorkulífeyrisþeginn.

Þegar um hjón er að ræða heimilar Tryggingastofnun öflun upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðila, ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Sama gildir um tekjur sambúðarfólks sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun skv. 3. mgr. 62. gr. laga um tekjuskatt. Telji umsækjandi, greiðsluþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Tryggingastofnun ríkisins ber að upplýsa viðkomandi aðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun.

Í 41. gr. segir um skort á upplýsingum:

„Ef ekki reynist unnt að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum sem rekja má til umsækjanda, greiðsluþega eða maka hans“ — við viljum að „maki“ fari út — „er Tryggingastofnun heimilt að fresta ákvörðun og greiðslu bóta þar til úr því er bætt. Tryggingastofnun skal tafarlaust gera viðkomandi viðvart ef til frestunar kemur, skora á hann að veita nauðsynlegar upplýsingar og gera honum grein fyrir afleiðingum þess ef áskorun um að veita upplýsingar er ekki sinnt.“

Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að þarna er verið hreinlega að hóta því að ef allar upplýsingar séu ekki til staðar þá verður viðkomandi maki tekjulaus. Það er með ólíkindum að það skuli vera sett í hendur þess aðila sem sækir um örorkubætur að maki komi og gefi upplýsingar um allt sem varðar meðferð málsins. Við vitum að það gæti þess vegna verið skilnaður í gangi og hvað þá? Hvernig í ósköpunum á í slíku tilfelli að þvinga maka og skerða réttindi þess sem sækir um? Þetta er eiginlega bara sorglegt og ég vona svo heitt og innilega að þetta mál komist alla leið og þessi ákvæði verði tekin út eins og lagt er til í frumvarpinu.

Þegar þetta mál um almannatryggingalög var lagt fram á sínum tíma og var hjá velferðarnefnd komu 15 umsagnir um það; Öryrkjabandalagið, Mannréttindaskrifstofa Íslands. Persónuvernd gerði ýmsar athugasemdir við málið þegar það var í farvegi. Við vitum að almannatryggingalögin eru, má segja, bútasaumaður óskapnaður og ef vel ætti að vera þyrfti að pakka þeim saman, semja hreinlega ný lög til að reyna að taka út allar þær gildrur og furðulegu skerðingar sem er búið að setja inn í þau. Við vorum að takast á um að það skuli vera hægt með þessum lögum að skerða bætur keðjuverkandi. Það er eiginlega með ólíkindum að það sé líka hægt — ekki bara að skerða bætur almannatrygginga — heldur einnig svipta hreinlega einhvern bótum, bara vegna upplýsingaskorts frá ótengdum aðila sem málið kemur í sjálfu sér ekki við nema að því leyti til að hann er maki viðkomandi.

Það hlýtur að vera eitthvað mikið og alvarlegt að kerfi sem er byggt þannig upp að það geti refsað fólki fyrir að leita réttar síns og leita eftir því að fá eitthvað í hendur sem löggjafinn hefur bent á að eigi að bæta líf þess og gera því lífið betra, en þegar viðkomandi tekur við því þá er það þveröfugt. Það veldur fjárhagslegum skaða.

Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma voru svik bótaþega eitt af því sem var notað sem rökstuðningur með þeim. Þar af leiðandi voru þeir spyrtir saman við maka og alls konar svik og tölur um svikaupphæðir voru skuggalegar sem komu þar fram. Síðan kom í ljós að þær voru byggðar á kolröngum upplýsingum, yfirfærðar ranglega á íslenska örorkuþega og þegar upp var staðið voru einu svikin sem fundust þau sem komu eiginlega örorkulífeyrisþegum ekkert við. Þetta var nefnilega notað sem afsökun til að koma þessum ólögum á. Það er þjóðþrifamál að taka svona óskapnað úr lögum þar sem er verið að brjóta á réttindum fólks; mannréttindum og persónuverndarréttindum. Okkur ber skylda til að sjá til þess að í lögum sé ekki neitt sem getur valdið fólki tjóni og tekið af þeim réttindi, persónuverndaréttindi og eða mannréttindi. Meðan þessi heimild stendur í lögunum, að taka maka viðkomandi með, er í lögum heimild til að brjóta á persónuverndarréttindum og mannréttindum. Þess vegna vona ég að þetta mál fái góða meðferð hjá velferðarnefnd og fari í gegnum þingið. Þetta er bara eitt af mörgu sem þarf að laga í almannatryggingalögunum, eitt skref í átt að því að bæta lögin og alls ekki það síðasta.

Eins og fram hefur komið þá snýst þetta mál um þessa skyldu maka viðkomandi til að koma til skila ákveðnum upplýsingum og það er alger óþarfi að Tryggingastofnun hafi þessa heimild vegna þess að í sjálfu sér er hægt að ná svipuðum niðurstöðum með mun mildari aðferðum og spurning er bara hvers vegna Tryggingastofnun ríkisins ver að hafa þetta inni og hvers vegna þeir telja sig þurfa á því að halda.

Þegar málið var lagt fram á síðasta þingi sendi Öryrkjabandalagið athugasemd við málið og sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr.100/2007 (upplýsingaskylda og eftirlitsheimildir), 72. mál. ÖBÍ tekur undir með flutningsmönnum frumvarpsins að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar og upplýsingaskylda einstaklinga gangi of langt þegar þriðja aðila, maka umsækjanda, er gert að taka þátt í meðferð máls sem í raun er ekki tengt honum.

Eins og Tryggingastofnun ríkisins (TR) rekur í umsögn sinni eru það fjármagnstekjur maka sem geta haft áhrif á útreikning lífeyris sem stofnunin greiðir út. Einu gögnin sem TR notar til að skoða fjármagnstekjur umsækjanda og maka hans eru skattframtöl aðila. Fjármagnstekjur eru einu tekjur maka sem geta haft áhrif á lífeyri og því ljóst að engin ástæða er fyrir TR að krefjast upplýsinga frá maka eða fresta afgreiðslu mála vegna skorts á upplýsingum frá maka. Samkvæmt 43. gr. almannatryggingalaga er ýmsum aðilum, m.a. skattyfirvöldum skylt að veita TR upplýsingar að því marki sem það telst nauðsynlegt til að unnt sé að framfylgja lögunum. Er því ljóst að TR getur óskað eftir skattframtölum beint frá skattyfirvöldum ef nauðsyn krefur og því ekki þörf á því að krefjast aðkomu maka lífeyrisþega að afgreiðslu stofnunarinnar.“

Svo mörg voru þau orð frá Öryrkjabandalaginu. Það segir okkur alla söguna. Á sínum tíma sendi Tryggingastofnun ríkisins umsögn og þar kemur algjörlega skýrt fram að eina ástæðan fyrir því að Tryggingastofnun vill hafa þetta inni eru fjármagnstekjur maka. Það er gjörsamlega óskiljanlegt í núverandi fyrirkomulagi vegna þess að það fer enginn á örorkulífeyri án þess að TR fái skattskýrslur og staðurinn sem þeir geta fengið upplýsingar um fjármagnstekjur er í skattskýrslu. Þannig að hafa þessa heimild svona víðtæka í lögum í því samhengi að fá upplýsingar sem stofnunin hefur nú þegar er algjör óþarfi. Það er því miður ljótur angi laganna að hafa þessa heimild til upplýsingar inni sem gengur það langt að það er hreinlega verið að brjóta persónuverndarlög.

Ég tel að ekki þurfi að hafa miklu fleiri orð um þetta mál og ég vona heitt og innilega að við séum til þess bær núna í eitt skipti fyrir öll að þessi heimild verði tekin út. Það kostar ríkið ekki eina krónu að taka þetta út, að samþykkja þessar breytingar á lögunum en það gerir að verkum almannatryggingalögum verði betri. Það verður ekki í þeim kafli sem brýtur persónuverndarlög og ég tel líka að mannréttindi séu jafnvel brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er óþolandi að stofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins reyni að verja það og hafa eitthvað inni í lögum til að reyna að sannfæra sjálfa sig eða löggjafann um að hún þurfi á þessari heimild að halda til þess eins að ná einhverjum upplýsingum sem þeir hafa nú þegar og fá sjálfvirkt.

Þetta er eitt af þeim málum þar sem við í Flokki fólksins höfum rekið okkur á þar sem er hreinlega verið að brjóta á réttindum fólk í almannatryggingakerfinu. Almannatryggingalögin eru bútasaumaður óskapnaður sem þarf að leiðrétta. Jú, ríkisstjórnin telur sig vera komna af stað með þá leiðréttingu en dregur því miður lappirnar í því og ætlar að gefa sér allt of langan tíma í að klára það mál. Þess vegna segi ég að vonandi verður þetta í síðasta skipti sem ég mæli fyrir þessu máli vegna þess að eins og hefur komið skýrt fram, þá kostar þetta ríkisstjórna ekki krónu að ganga í það að sjá til þess að taka þetta mál út. Annað í þessu er að ríkisstjórninni ber skylda til að taka þetta út ef hún ætlar að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er alveg skýrt að um leið og við lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk þá er brot á honum að hafa þessi lög inni. Það ætti því ekki að vera mikið mál að fá þetta samþykkt og ég hefði haldið að það ætti líka að vera mjög auðvelt og það kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu.