153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

leiðir í orkuskiptum.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Reyndar er staðan einmitt í augnablikinu sú að verðbólga víðast á evrusvæðinu er hærri en hér á Íslandi og á samræmdan mælikvarða er verðbólgan enn næstlægst á Íslandi í Evrópu. Það má af þessu sjá að það er engin töfralausn að ganga í myntbandalag eða að styðjast við sameiginlega mynt, taka upp aðra mynt, fara einhverja slíka leið, heldur verða menn einfaldlega að gangast við þeirri ábyrgð sem því fylgir að halda úti sjálfstæðri mynt. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru miklar áskoranir því samfara. En ef við tökum aftur dæmið sem vísað var til, sem er Danmörk, þá held ég að það megi fullyrða að danski Seðlabankinn myndi mjög gjarnan vilja geta hækkað vexti við þær aðstæður sem þar eru uppi í verðbólgumálum en þeim eru mjög þröng skilyrði sett (Forseti hringir.) til að gera það vegna þess að þau hafa tengt sig við evru.