153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

hækkun stýrivaxta.

[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður kallar eftir umræðu um stóru myndina og ég ítreka að það er gott að ræða hana en við getum líka horft á stöðuna innan Evrópusambandsins þar sem hagvöxtur hefur víðast hvar verið mun minni en hér. Við erum að sjá hér uppgang í flestum geirum samfélagsins. Við sjáum það að allar spár um atvinnuleysi á Íslandi, sem voru mjög dökkar (Gripið fram í.) fyrir mjög skömmum tíma, hafa ekki gengið eftir. Þetta er hluti af stóru myndinni því að við getum ekki rætt vaxtastig án þess að ræða atvinnustig og án þess að ræða aðra þætti ríkisfjármálanna. Ríkisstjórnin er að leggja sitt af mörkum til þess að beita aðhaldi í ríkisrekstri í því fjárlagafrumvarpi sem hér var lagt fram. Seðlabankinn hefur verið að beita sínum tækjum og ég vil bara ítreka það að Seðlabankinn er sjálfstæður. Hann hefur verið að beita stýrivaxtatækinu vegna löggjafar sem kom til að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar. Þá fékk Seðlabankinn víðtækari stýritæki gagnvart húsnæðismarkaðnum og það er stórmál þegar kemur að hagstjórn í þessu landi, stórmál sem ekki hefur verið nægjanlega rætt hér í þessum sal né annars staðar. (Forseti hringir.)

Ég vil að lokum nefna það hvað varðar vísitöluna sjálfa að það stendur yfir vinna á vettvangi Hagstofunnar um endurskoðun á útreikningi húsnæðisliðarins (Forseti hringir.) því að hluti af stóru myndinni er líka hvernig við reiknum vísitöluna samanborið við Evrópu.