Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:30]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 582, sem er mál nr. 490, en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/2018, um veiðigjald, framkvæmd fyrninga. Ég vil áður en lengra er haldið með þessa framsögu færa fram þakkir til þingsins sem hefur verið liðlegt í því að taka við þessu máli undir óvenjulegri tímapressu. Ég þakka fyrir góð samtöl, ekki síst í hv. atvinnuveganefnd þar sem við fórum þá óvenjulegu leið að fjalla um málið í raun og veru áður en það var komið út úr þingsal til að skerpa á umræðunni í tæka tíð.

Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu og með því eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 145/2018, um veiðigjald, þ.e. um framkvæmd fyrninga samkvæmt ákvæði 5. gr. laganna. Frumvarpið felur í sér að sett er þak á fyrningar skipa og skipsbúnaðar sem geta komið til frádráttar við útreikning á reiknistofni veiðigjalds samkvæmt greininni fyrir hvert reikningsár. Lagt er til að séu skattalegar fyrningar samtals hærri en 20% af fyrningargrunni að viðbættum 200 millj. kr. skuli Skatturinn dreifa því sem umfram er á næstu fimm ár. Áætluð vaxtagjöld skulu þá nema sömu fjárhæð og þær fyrningar sem lagðar eru til grundvallar útreikningi á veiðigjaldi á ári hverju.

Aðeins um aðdraganda málsins: Árið 2018 voru sett ný heildarlög um veiðigjald sem tóku gildi 29. desember 2018 og komu þá í stað fyrri laga sama efnis frá 2012. Samkvæmt lögunum er veiðigjald ákvarðað 33% af reiknistofni sem ákveðinn er fyrir hvern nytjastofn þannig að frá aflaverðmæti er dreginn hlutur stofnsins í breytilegum úthaldskostnaði og áætluðum föstum kostnaði. Í samræmi við lögin og framkvæmd þeirra byggist reiknistofn veiðigjalds ársins 2023 á afkomu ársins 2021, þannig að það kemur til álagningar með þessari hliðrun, en til fasts kostnaðar við fiskveiðar teljast við það uppgjör skattalegar fyrningar skipa og skipsbúnaðar og áætluð vaxtagjöld sem nema skulu sömu fjárhæð og fyrningar.

Tilefni þessa frumvarps sem hér er mælt fyrir er að miklar sveiflur hafa verið í veiðigjaldi milli ára á undanförnum árum. Til að nefna eitt dæmi til skýringar hefur t.d. veiðigjald af grálúðu sveiflast úr 32 kr. á kíló á árinu 2020 í 0 kr. á kíló á yfirstandandi ári. Sveiflur í veiðigjaldi eru að vissu marki eðlilegar og raunar er gert ráð fyrir því að það breytist í takti við aflabrögð, það var markmiðið, og markaðsaðstæður og ástand stofnana, þ.e. hugmyndafræðin var sú að veiðigjöldin sveiflist í takti við afkomuna. Það sem er hins vegar óheppilegt er að það hafa verið miklar sveiflur í þeim hluta veiðigjaldanna sem hefur ekkert með markaði eða vistkerfið að gera, þ.e. fyrningarhlutann, sem kemur til frádráttar sem nálgun á föstum kostnaði og vaxtakostnaði. Þetta á ekki síst við um útreikning gjaldsins vegna næsta árs, þ.e. ársins 2023, og næstu 1–2 árin þar á eftir vegna m.a. bráðabirgðaákvæðis nr. 70 í lögum um tekjuskatt sem kom inn með breytingarlögum nr. 33/21, sem samþykkt voru samhljóða á Alþingi og voru hluti af tilteknum aðgerðum í tengslum við Covid. Þau lög heimila að fyrna lausafé, m.a. skip og skipsbúnað, um 50% á ári vegna fjárfestinga á árunum 2021 og 2022 og voru hugsuð til að hvetja til fjárfestinga, einkum grænna fjárfestinga. Einnig vegna ákvæðis 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem heimilar fyrningu sem nemur fjárhæð skattskylds söluhagnaðar fyrnanlegra eigna. Ef miklar fyrningar eru hjá tilteknum útgerðaraðilum, t.d. vegna ákvæðis til bráðabirgða nr. 70 í lögum um tekjuskatt, eða 14. gr. í sömu lögum, hækkar sá fastakostnaður sem dreginn frá aflaverðmæti og hefur áhrif á reiknistofn viðkomandi nytjastofns til lækkunar á veiðigjöldum.

Nú í haust óskaði matvælaráðuneytið eftir upplýsingum frá Skattinum um áætlað veiðigjald á árinu 2023 þegar upplýsingar lágu fyrir, sér í lagi um það hvort bráðabirgðaákvæði tekjuskattslaga um heimildir til flýtifyrninga til að hvetja til fjárfestinga á tímum Covid hefðu veruleg áhrif á veiðigjöld til lækkunar á komandi ári. Í ljós kom að aukafyrningar, bæði vegna þessa bráðabirgðaákvæðis og fyrningarheimilda vegna söluhagnaðar eigna, sem áður er nefnt, þá lækkuðu veiðigjöld að öðru óbreyttu um 2,5–til 3 milljarða á næsta ári og yrðu til að mynda veiðigjöld á uppsjávartegundirnar, loðnu, síld, makríl og kolmunna, afar lág, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Lækkunin yrði þó ekki varanleg heldur tilfærsla í tíma.

Með þessu frumvarpi er kveðið á um að fyrningar sem eru umfram 20% dragist frá veiðigjaldastofni í fimm jafn háum fjárhæðum á næstu fimm árum sem eftir koma, þ.e. að þessum áhrifum verði dreift á fimm ár. Með því er áformað, sem er mikilvægt bæði fyrir samfélagið og ríkissjóð og auðvitað fyrir sjávarútveginn sjálfan, að draga úr sveiflum á veiðigjald vegna aukafyrninga en um leið að tryggja það sem lagt er upp með, að fyrning skipa og skipsbúnaðar nýtist að fullu yfir lengra tímabil. Til að einfalda framkvæmd Skattsins er kveðið á um að slík dreifing fyrninga eigi sér aðeins stað þegar aukafyrningar næmu a.m.k. 200 millj. kr., en með því næst að mati Skattsins að taka tillit til þeirra fáu skipa með svo miklar aukafyrningar að þær hafa veruleg áhrif á reiknistofn veiðigjalds. Breytingin felur sem sé í sér að sveiflur í veiðigjaldi eru jafnaðar út með því að dreifa fyrningum á fleiri ár. Þetta er meira í samræmi við markmið laga nr. 145/2018, og leiðir einnig til meiri stöðugleika á innheimtu á veiðigjaldi af nytjastofnum og betra samræmis við raunverulega afkomu útgerðanna, sem var auðvitað markmið laganna á sínum tíma, með því að byggja inn reiknireglur sem jafna sveiflur í þáttum sem eru í litlu eða jafnvel engu samhengi við afkomu af nýtingu nytjastofna.

Virðulegi forseti. Okkur lánaðist á fundi atvinnuveganefndar í morgun, góðum fundi þar, að ræða nokkrar vangaveltur og spurningar sem komu upp í huga þingmanna við fyrstu sýn. Ég vil geta þess, í ljósi þess hversu hratt þarf að vinna málið, að matvælaráðuneytið er reiðubúið til samstarfs við hv. atvinnuveganefnd þingsins eins og þurfa þykir og er reiðubúið að koma og gefa upplýsingar og ræða einstök mál við nefndina eftir því sem þarf.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir frumvarpinu þar sem fjallað er um og gerð grein fyrir efni þess eins og nokkurs er kostur. En af því að sú spurning liggur í loftinu hvers vegna verið er að gera þetta með svona stuttum fyrirvara þá er því til að svara að nægilegar forsendur og álagningin lá ekki fyrir fyrr en í lok september. Þegar lögin voru sett á sínum tíma þá gat í raun og veru enginn séð fyrir hver áhrif þessa ákvæðis yrðu á þessa þætti á þessu ári, þ.e. fyrir álagningu veiðigjalda fyrir árið 2023.

Ég árétta það sem sagt og lýsi því yfir að ég er reiðubúin til góðs samstarfs við hv. atvinnuveganefnd. Ég þakka að lokum hæstv. forseta fyrir liðlegheit við að koma málinu hér á dagskrá.