Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:44]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er ljóst að hér er um að ræða lagabreytingu sem verið er að leggja til til að skerpa á ákveðnum skilningi og til að tryggja að ekki verði umtalsvert fall á innkomu í ríkissjóð vegna þessara ófyrirséðu víxlverkana. Það er hins vegar algerlega ljóst, og við hv. þingmaður höfum rætt það ítrekað hér, að á veiðigjöldum eru margar skoðanir. Þau hafa verið lögð á með ýmsum hætti undanfarin ár og engin þeirra aðferða er að mínu mati gallalaus. Því er hægt að taka undir mjög margt sem hv. þingmaður segir. Það er verið að skoða öll þessi mál og þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir hér í þeirri umfangsmiklu stefnumótunarvinnu sem er í gangi. Bráðabirgðatillögur úr þeirri vinnu munu raunar liggja fyrir fljótlega eftir áramót.