Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[11:56]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög áhugavert hvernig við erum að fá þetta mál inn í þingið, hvernig þetta kemur til og hver aðdragandinn allur er. Auðvitað sýnir þetta okkur svart á hvítu að það hvernig við hugsum þessi veiðigjaldamál er allt of flókið og allt of ógagnsætt. Það er algerlega óboðlegt að úti í samfélaginu sé tilfinning um að einhvern veginn sé hægt að spila með kerfið til að hafa áhrif á upphæðina á endanum, án þess að ég sé að fullyrða að það sé gert. Það er auðvitað tilfinningin sem skapast þegar hlutirnir eru svona ógagnsæir.

Ég hjó eftir því að í greinargerðinni er verið að tala um að haft hafi verið samráð við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er umtalsverð breyting fyrir fyrirtækin sem lenda í þessu. Mig langar að vita og fá svör við því hjá hæstv. ráðherra hvort búast megi við því að einhver einstök fyrirtæki geri verulegar athugasemdir við þessa leið sem verið er að fara til þess að bjarga málum fyrir horn á síðustu stundu, og jafnvel hvort einhvers konar málaferli gætu verið yfirvofandi vegna þessa.