Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Ekkert er verið að lækka veiðigjöldin en verið er að fletja út kúrfu. Ég get alveg skilið að hæstv. matvælaráðherra vilji jafna aðeins út tekjuflæðið af veiðigjöldunum. Ég er hins vegar ekki sammála því að það eigi að túlka lögin sem við samþykktum hér vorið 2021 með þessum hætti, að bráðabirgðaákvæðið hafi áhrif á útreikning veiðigjalda. Eins og hv. þingmaður man vissum við ekkert hvað framtíðin bæri í skauti sér í miðjum heimsfaraldri. Í stjórnarandstöðunni vorum við tilbúin til samstarfs og við lögðumst yfir öll frumvörpin sem hér komu inn og mörg hver voru í efnahags- og viðskiptanefnd sem ég sat í þá, auk þess voru frumvörp í velferðarnefnd. Við vildum gera allt sem við gætum til að laga ástandið. Þetta frumvarp veldur síðan lækkun á veiðigjöldum af því að reiknireglan undir veiðigjöld er svo rugluð og túlkunin á þessum fjárfestingaívilnunum sem gerðar voru vorið 2021.

Af því að hv. þingmaður spyr þá var ég sammála því að hvetja til fjárfestinga á þessum tíma. Við höfðum áhyggjur af því að illa væri að fara fyrir okkur og mér fannst sérstaklega mikilvægt, og fagnaði því sérstaklega í frumvarpinu sem mælt var fyrir í desember 2020, að mjög rík áhersla var lögð á grænar fjárfestingar. Það var einmitt það sem við höfðum talað fyrir í Samfylkingunni, að við þyrftum að koma inn með ívilnanir í þessu ástandi og þá ættum við að leggja áherslu á grænar fjárfestingar.